Íbúðafjárfesting mun aukast um 18% á þessu ári og svo um 20% á ári næstu tvö ár, samkvæmt nýrri spá hagfræðideildar Landsbankans. Bankinn spáir því að íbúðafjárfesting aukist svo um 15% árið 2019.
Í fyrra var íbúðafjárfesting 2,6 prósent af landsframleiðslu, en á árunum 2000 til 2008 hafði slík fjárfesting yfirleitt verið á bilinu fjögur til sex prósent af landsframleiðslu. Eftir hrun lækkaði hlutfallið verulega og fór lægst í 2,2 prósent árið 2010. Undanfarin þrjú ár hefur fjárfesting í íbúðum verið að meðaltali um 2,8 prósent af landsframleiðslu. Fyrir hrun hafði fjárfestingin náð rúmlega 148 milljörðum króna, en hrundi niður í 44 milljarða árið 2010 og hefur ekki farið nálægt þeim hæðum sem hún var í fyrir hrun. Íbúðafjárfesting nam um 60 milljörðum króna árið 2014 og aðeins minna árið 2015.
Á fyrri hluta þessa árs jókst íbúðafjárfesting hins vegar um 17 prósent miðað við sama tíma í fyrra.
Fjöldi íbúða í byggingu líka á uppleið
Sömu sögu er að segja af fjölda íbúða í byggingu, sem hefur tekið mikinn kipp upp á við. Byggingastarfsemi hrundi árið 2008 og var lengi að ná sér á nýjan leik. Árið 2014 var t.d. aðeins byrjað á byggingum 580 íbúða á öllu landinu, og lokið var við byggingu 1.150 íbúða.
Árin 1985 til 2014 var að meðaltali byrjað á um 1.700 íbúðum á hverju ári og lokið var við byggingu svipaðs fjölda. Í fyrra var hins vegar byrjað á rúmlega 1.600 íbúðum. Þá bendir hagfræðideildin á að mikil aukning hafi orðið á innflutningi á helstu byggingarefnum.