Píratar gera ekki lengur kröfu um að ráðherrar annarra flokka sem þeir myndu fara í stjórnarsamstarf með segðu af sér þingmennsku. Nú gildir sú regla einungis um þingmenn Pírata. Þetta var samþykkt í hraðkosningu í kosningakerfi Pírata í gærkvöldi.
Alls kusu 244 í kosningunni og sögðu 216, eða tæplega 89 prósent, já við breytingunni.
Krafa Pírata var mikið í umræðunni á meðal að á viðræðum fimm flokka, meðal annars Pírata, um myndun fimm flokka ríkisstjórnar undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur stóð fyrr í þessum mánuði. Þátttakendur í þeim viðræðum voru auk Pírata Vinstri græn, Samfylking, Björt framtíð og Viðreisn.
Píratar höfðu nefnilega samþykkt í kosningakerfi sínu um miðjan febrúar síðastliðinn að þeir myndu hafna aðkomu að ríkisstjórn þar sem þingmenn eru einnig ráðherrar. Í þeirri samþykkt kom fram að það yrði gert að „algjörri og ófrávíkjanlegri kröfu af hálfu Pírata um stjórnarsamstarf að þessi háttur verði hafður á.“ Sú ályktun var samþykkt með miklum meirihluta atkvæða í kosningakerfi Pírata, 115 voru fylgjandi en sjö á móti. Mun fleiri tóku þó þátt í hraðkosningunni sem haldin var í gær til að breyta hinni rúmlega níu mánaða gömlu samþykkt flokksins.
Fátt bendir til þess í dag að reyna muni á þessa stefnu Pírata þar sem þær þreifingar sem fóru fram um helgina um myndun ríkisstjórna gerðu ekki ráð fyrir aðild flokksins.