Verslanir Bónuss og Hagkaups hafa tekið Brúnegg úr sölu, og fylgja þannig í kjölfar Krónunnar og Melabúðarinnar. Verslanirnar tilkynntu um þetta á Facebook í morgun.
Ástæðan er Kastljós-þáttur sem sýndur var í gærkvöldi þar sem fjallað var um fordæmalaus afskipti Matvælastofnunar af eggjabúum Brúneggja. Í þættinum kom fram að Brúnegg hefði, að mati stofnunarinnar, blekkt neytendur árum saman með því að notast við merkingar sem héldu því fram að eggjaframleiðsla fyrirtækisins væri vistvæn og að varphænur þess væru frjálsar. Í krafti þess kostuðu eggin um 40 prósent meira en þau egg sem flögguðu ekki slíkri vottun.
Kastljós fékk aðgang að gögnum um afskipti Matvælastofnunnar af Brúneggjum og í þeim kom í ljós að stofnunin hefur í tæpan áratug haft upplýsingar um að Brúnegg uppfyllti ekki skilyrði sem sett voru fyrir því að merkja vörur sem vistvænar. Það væri því að blekkja neytendur. Atvinnuvegaráðuneytið hafði líka þessar upplýsingar, en neytendum var ekki greint frá þeim.
Fyrir ári síðan hafi staðið til að taka yfir vörslu á hænum Brúneggja vegna ítrekaðra brota á lögum um meðferð dýra, meðal annars með því að vera með allt of marga fugla í eggjahúsum. Til að koma í veg fyrir vörslusviptinguna þurftu Brúnegg að slátra um 14 þúsund fuglum.
Högnuðust um tugi milljóna á ári
Brúnegg ehf. hefur hagnast um tugi milljóna á ári undanfarin ár. Til að mynda var hagnaður fyrirtækisins tæplega 42 milljónir króna í fyrra og tæplega 30 milljónir árið 2014. Samtals hefur hagnaður fyrirtæksins á árunum 2009 til 2016 verið vel yfir tvö hundruð milljónir króna. Bræðurnir Kristinn Gylfi Jónsson og Björn Jónsson eiga fyrirtækið í gegnum einkahlutafélög sín, og þessi félög högnuðust samanlagt um tæplega hundrað milljónir króna í fyrra. Stundin greinir frá þessu.