Hæstiréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem hafnað var kröfum um að Ásmundur Helgason héraðsdómari viki sæti í tengslum við rannsókn rannsóknarnefndar Alþingis á kaupum þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers á 45,8 prósent eignarhlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands árið 2003.
Rannsóknarnefndin var skipuð í sumar eftir að Umboðsmaður Alþingis, Tryggvi Gunnarsson, sagði að nýjar upplýsingar væru komnar fram um viðskiptin. Þessar upplýsingar varpa skýrari ljósi á það að aðkoma fyrrnefnda banka að kaupunum hafi ekki verið sú sem fullyrt var þegar gengið var frá sölu ríkisins á eignarhlutnum.
Tryggvi sendi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis bréf þar sem hann lagði til að skipuð yrði rannsóknarnefnd um málið. Snýst málið meðal annars um að upplýsa hvort Kaupþingi hafi í raun fjármagnað kaupin, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Þrír varnaraðilar í málinu neituðu að koma fyrir rannsóknarnefndina nema Ásmundur viki fyrst úr henni þar sem meint vanhæfi hans var sagt lút að því, að hann væri dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur líkt og Kjartan Bjarni Björgvinsson sem Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, skipaði í sumar til þess að stýra rannsóknarnefndinni.
Hluturinn í Búnaðarbankanum var seldur til fjárfestingahóps sem kallaði sig S-hópinn en einn af forystumönnum hans var Ólafur Ólafsson kaupsýslumaður, sem var eigandi 10 prósent eignarhlutar í Kaupþingi þegar hann féll haustið 2008. Ólafur hlaut fjögurra og hálfs árs fangelsisdóm vegna Al-Thani málsins.
Rannsóknin beinist sérstaklega að hlut þýska einkabankans Hauck & Aufhäuser, eins og áður sagði, að kaupum S-hópsins á Búnaðarbankanum í byrjun árs 2003.
Ólafur, sem er fyrrverandi stjórnarformaður Eglu sem var hluti S-hópsins svokallaða, ásamt Guðmundi Hjaltasyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra félagsins, eru tveir af þremur sem fóru fram á að Ásmundur myndi víkja til hliðar í málinu.
Í dómi Hæstaréttar segir að ekki verði fallist á vanhæfisástæður þeirra sem halda þeim uppi, og var niðurstaða héraðsdóms því staðfest. „Mál þetta er rekið á grundvelli sérlaga nr. 68/2011, um rannsóknarnefndir. Einungis er óskað atbeina dómara til að vitnið gefi skýrslu fyrir dómi um þau atvik sem rannsóknin sem Alþingi hefur ályktað að fram skuli fara, þar sem sóknaraðili telur að skilyrðum 2. mgr. 8. gr. fyrrgreindra laga sé fullnægt. Dómara er einungis ætlað að stýra þeirri skýrslutöku en kemur ekki að rannsókninni að öðru leyti. Kjartan Bjarni Björgvinsson er skipaður héraðsdómari við sama dómstól og undirritaður héraðsdómari. Honum hefur verið falið af forseta Alþingis á grundvelli laga nr. 68/2011 að stýra umræddri rannsókn. Hann á hins vegar enga hagsmuni tengda niðurstöðu þeirrar rannsóknar. Að teknu tilliti til þess sem hér hefur verið rakið er það niðurstaða dómara að ekki séu fyrir hendi atvik eða aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni undirritaðs dómara með réttu í efa, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Kröfu vitnisins um að dómarinn víki sæti er því hafnað,“ segir í niðurstöðu Hæstaréttar.