Vigdís Hauksdóttir, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, segir að umfjöllun RÚV um Brúnegg sé gerð „til þess að knésetja íslenskan landbúnað.“ Það sé „agenda RÚV og "góða fólksins".“
Þetta kemur fram á Facebook-síðu Vigdísar. Þar sakar hún Kastljós líka um að falsa myndirnar sem birtust í þættinum í gærkvöldi og segir þáttinn þekktan fyrir að falsa myndir með umfjöllun. „Voru þessar myndir frá búinu? Voru þessar myndir kannski frá öðru hæsnabúi í öðru landi? Kastljós er þekkt fyrir að falsa myndir með umfjöllun - væri einnar messu virði að senda fyrirspurn um það“
Þá segir Vigdís að Ríkisútvarpið stundi falsanir og „3.600 milljónir renna úr vasa okkar landsmanna inn í þessa skoðanamyndandi stofnun - það var maður sem hafði samband við mig í gær og sagði mér að starfsmannafjöldinn á RÚV væri kominn yfir 700 manns með verktökum - hvenær er nóg nóg?“ segir hún á Facebook.
Kastljós sýndi í gær þátt þar sem fjallað var um fordæmalaus afskipti Matvælastofnunar af eggjabúum Brúneggja. Þar kom fram að Matvælastofnun teldi að fyrirtækið hefði um árabil blekkt neytendur með því að notast við merkingar um vistvæna framleiðslu og frjálsar varphænur. Kastljós fékk aðgang að gögnum Matvælastofnunar, um þúsund blaðsíður af skýrslum og samskiptum, og komst þannig að því að í tæpan áratug hefur verið vitneskja um að Brúnegg uppfylli ekki skilyrði sem sett voru fyrir vistvænni merkingu.
Vigdís gagnrýnir líka eftirlitsaðila í færslu sinni og birtir mynd af fjárlögum ársins 2016, þar sem fram kemur að Matvælastofnun hafi fengið 1,6 milljarð til reksturs stofnunarinnar. Hún segir að Samkeppniseftirlitið sé „á eftir MS“ fyrir tæpan hálfan milljarð á ári.
Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og flokksbróðir Vigdísar, segir við RÚV að hann hafi verið orðlaus yfir þættinum. „Þetta er algjör viðbjóður hvernig þarna hefur verið staðið að,“ sagði ráðherrann. Hann segir ráðuneytið ætla að fara betur yfir þetta mál en mistök hafi verið gerð þegar starfsmaður, sem fékk málið á sitt borð, hætti störfum.