Stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna halda áfram í dag. Fundur þeirra Bjarna Benediktssonar og Katrínar Jakobsdóttur í gær kláraðist ekki og verður fram haldið í dag. Bæði verjast þau fregna af fundum sínum og segjast enn vera að „ræða stóru línurnar.“ Samanlagt hafa þessir flokkar 31 þingmann og vantar því einn enn til þess að geta myndað meirihluta.
Bjarni sagðist í samtali við RÚV í fyrsta skipti í gær hafi hafist samtal á milli þessara flokka um hvort hægt verði að brúa málefnabilið á milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins. Hann var á leið á ríkisstjórnarfund þegar fréttastofa RÚV náði tali af honum.
„Í fyrsta skipti í gær áttum við dýpra samtal um málefnin og stefnu flokkanna á einstökum sviðum og hvort það er hægt að brúa bil þar á milli,“ sagði Bjarni. Hann segir að undanfarna daga hafi skýrst hvaða möguleikar séu í boði og jafnvel þó það sé enginn formlegur tímarammi á viðræðum Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna þá sé það vitað að allir vinni undir tímapressu. „[...] hún er ekki óbærileg en það er mjög mikilvægt að ljúka þessu eins hratt og hægt er.“
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, fundaði með þingflokki sínum í dag. Vísir.is náði tali af henni á leið inn á fundinn sagði hún að það væri „mjög lítið títt“ og að nú væri fundarhlé á fundum þeirra Bjarna. „Við erum enn þá að ræða stóru línurnar,“ sagði hún. Eftir þingflokksfundinn sagði hún ekki ljóst hvenær hlutirnir yrðu komnir á hreint.
Á meðan bíða Benedikt Jóhannesson og Óttarr Proppé á hliðarlínunni en eins og Kjarninn hefur greint frá höfðu Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð komist að samkomulagi um meginatriði í myndun nýrrar ríkisstjórnar áður en Sjálfstæðisflokkurinn snéri sér alfarið að Vinstri grænum.
Aðrir kostir höfðu einnig staðið til boða; til dæmis ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Viðreisnar. Benedikt hafnaði hins vegar boði um aðild Viðreisnar að því ríkisstjórnarsamstarfi.
Flokkarnir hafa undanfarna daga slegið af kröfum sínum í hugsanlegum stjórnarmyndunarviðræðum. Píratar samþykktu til dæmis á sunnudagskvöld að gera ekki lengur kröfu um að ráðherrar annarra flokka sem þeir myndu fara í stjórnarsamstarf með segðu af sér þingmennsku.
Annars staðar biðja þingmenn aðra flokka um að hafa opnari hug gagnvart þeim flokkum sem sátu í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili. Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skrifaði á Facebook-síðu sína í dag um „vitleysisumræðuna í íslenskum stjórnmálum“ sem ætlar engan enda að taka.
„Nú er erfitt að mynda ríkisstjórn því enginn vill vera 3ja hljól undir vagni síðustu ríkisstjórnar. Af sömu ástæðu gætu sjálfstæðismenn ákveðið að fara ekki í stjórn með Vg og Samfylkingunni því hann vill ekki vera 3ja hjól undir vagni Jóhönnustjórnarinnar frá 2009-2013,“ skrifar Brynjar. „Hættum þessari 3ju hjóls umræðu enda ekki um að ræða vagna eða hjól heldur nýja ríkisstjórn með nýjum og öðruvísi stjórnarsáttmála.“