Veitingastaðurinn Sushi Samba á Íslandi má ekki heita Sushi Samba lengur. Þetta er niðurstaða Hæstaréttar Íslands í máli alþjóðlegrar veitingakeðju með sama nafni gegn íslenska veitingastaðnum. Dómur féll í málinu í dag.
Veitingakeðjan stefndi eigendum Sushi Samba á Íslandi fyrir dómstólum eftir að hafa krafist þess við Einkaleyfastofu og svo áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar að íslenska staðnum yrði bannað að nota vörumerkið. Veitingakeðjan hefur rekið veitingastaði undir vörumerkinu sushisamba í Bandaríkjunum frá árinu 2000 og svo í fleiri löndum.
Sushi Samba á Íslandi fékk vörumerkið skráð hjá Einkaleyfastofu árið 2011. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að bandaríska keðjan hafi ekki getað sýnt fram á að vörumerkið væri „alþekkt“ á Íslandi, en hefði sannað með óyggjandi hætti að eigendur íslenska veitingastaðarins hafi vitað eða mátt vita um tilvist vörumerkisins, og hafi verið í vondri trú.
Því felldi Hæstiréttur úr gildi úrskurð áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda, og skráningu vörumerkisins hér á landi. Sushi Samba á Íslandi þarf einnig að greiða 1,5 milljónir fyrir hagnýtingu merkisins.