Bandaríska húsnæðisleigusíðan Airbnb.com ætlar að gefa eftir í baráttu sinni við löggjafa í Evrópu og gera borgum það kleift að takmarka fjölda daga sem hver íbúð á skrá getur verið í leigu á ári. Fyrirtækið hefur þegar samþykkt að takmarka fjölda nátta í útleigu í London og Amsterdam, sem eru tveir af stærstu mörkuðum AirBnB í Evrópu. Til greina kemur að íslensk stjórnvöld óski eftir slíkum takmörkunum fyrir íbúðir hér á landi. Þessi möguleiki hefur hins vegar ekki verið kannaður hjá AirBnB.
Hér á landi hefur ný löggjöf verið samþykkt um takmarkanir á útleigu heimila og fasteigna. Löggjöfin tekur gildi um áramótin en þá verður fjöldi daga sem fasteign getur verið í útleigu takmarkaður við 90 daga, sé ekki sótt um sérstakt rekstrarleyfi. Fjallað er um löggjöfina í grein á vefnum Gestur.is.
AirBnB hefur verið undir töluverðum þrýstingi víða um heim vegna þeirra áhrifa sem fyrirtækið hefur haft á hótel og gistirýmamarkað. Víða hefur leyfisskild starfsemi í ferðaþjónustu talið troðið á rétti sínum til að veita gistiþjónustu þegar almenningi er býðst kostur á að veita svipaða þjónustu án þeirra kvaða sem leyfisskildir aðilar búa við.
Þess vegna hafa stjórnvöld víða brugðist við og sett takmarkanir á fjölda daga sem húsnæði í einkaeigu getur verið í leigu á ári hverju. Í Amsterdam er sá fjöldi 60 dagar. Eins og áður segir verður fjöldi leigudaga takmarkaður við 90 daga hér á landi, hafi viðkomandi leigusali ekki tilskilin leyfi.
Í svari við fyrirspurn Kjarnans til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins segir að ekki sé útilokað að haga hlutum þannig að skylt verði að skrá skráningarnúmer við auglýsingar á vef AirBnB. Eftir lagabreytinguna verður þeim sem eru með heimagistingu skylt að sækja um skráningarnúmer sem nota skal við alla markaðssetningu á heimagistingunni.
Til þess að fá skráningarnúmer verða einstaklingar sem ætla að leigja út íbúðina sína eða hluta af heimili sínu að uppfylla ákveðnar kröfur um brunavarnir, ástand og húsakynnin verða að vera samþykkt sem íbúð. Sérstakt árgjald að upphæð 8.000 krónur þarf einnig að greiða fyrir skráninguna. Allar þessar kröfur eru gerðar til þess að einfalda og bæta eftirlit með leyfislausri starfsemi. Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans segir að ekki standi til að útvista þessari skráningu til aðila á borð við AirBnB.
Fjöldi gistirýma í útleigu hér á landi hefur margfaldast á síðustu árum og þá gildir einu um hvort það eru heilar íbúðir eða afmörkuð herbergi sem eru í boði. Á Airbnb.com hefur verið hægt að finna 3.104 skráð gistirými síðustu 30 daga í Reykjavík. Þessi fjöldi var að jafnaði um 1.700 gistirými árið 2015 og rúmlega 700 árið 2014. 73,2 prósent þeirra sem bjóða upp á leigu í Reykjavík á vef AirBnB bjóða heila íbúð til leigu. Í 59 prósent tilvika voru eignir í Reykjavík samtals í útleigu í minna en þrjá mánuði undanfarið ár.