Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, hefur verið boðuð á fund Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, á Bessastöðum klukkan 16 í dag. Ekki hefur verið gefið upp hver ástæða fundarins er, en mögulegt er að forsetinn hyggist fela Pírötum umboð til stjórnarmyndunar.
Guðni Th. Jóhannesson hefur í dag fundað með leiðtogum allra flokka sem eiga sæti á Alþingi. Eftir fund hennar og annarra í viðræðunefnd Pírata með forsetanum sagði hún að Pírötum þætti algjörlega ótímabært að ræða um þjóðstjórn á þessum tímapunkti.
Hún hefur lýst því yfir að hún vilji reyna aftur við myndun fimm flokka stjórnar Pírata, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Flokkarnir, utan Vinstri grænna, ræddu saman á meðan VG voru að ræða við Sjálfstæðisflokkinn. Eftir að ljóst varð að ekkert yrði úr viðræðum þeirra buðu flokkarnir fjórir Katrínu Jakobsdóttur, formanni VG, og hennar flokki aftur að óformlegum viðræðum.
Forseti Íslands hefur þegar veitt stjórnarmyndunarumboðið tvisvar án árangurs. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fékk umboðið fyrstur, meðal annars á grundvelli þess að flokkur hans er stærstur. Þegar honum tókst ekki að mynda stjórn fékk Katrín Jakobsdóttir stjórnarmyndunarumboðið, en VG er annar stærsti flokkurinn á þingi. Píratar eru þriðji stærsti flokkurinn.