Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu undirrita viljayfirlýsingu um að standa saman að fyrstu skrefum í uppbyggingu borgarlínu í dag. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, segir verkefnið geta leyst stærri hluta samgönguþarfar höfuðborgarsvæðisins til framtíðar. Íbúafjöldaspár gera ráð fyrir mikilli fólksfjölgun á svæðinu á næstu árum og áratugum.
„Þetta er eitt af meginverkefnunum í borgarskipulaginu,“ segir Dagur í samtali við Kjarnann. Hann flutti erindi á loftslagsmálafundi í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun þar sem staða loftslagsverkefna Reykjavíkurborgar var kynnt. Almenningssamgöngur og þróun þeirra er stór þáttur í þeim málaflokki enda er ætlunin að hún komi sums staðar í stað einkabílsins á höfuðborgarsvæðinu.
„Við erum að leysa stærri hluta samgönguþarfarinnar til framtíðar með öflugri almenningssamgöngum. Til þess erum við bæði að bæta Strætó en við þurfum líka afkastameiri hágæða almenningssamgöngur á stöðum þar sem margir búa,“ segir Dagur.
Í nánustu framtíð er gert ráð fyrir að koma á fót hraðvagnakerfi á höfuðborgarsvæðinu og byrja á að reisa tvær æðar um höfuðborgarsvæðið. Í framhaldi af því verði hægt að huga að léttlestarkerfi innan borgarmarkanna, sem er mun tímafrekara verkefni í framkvæmd.
Hraðvagnakerfi er í reynd næsta skref fyrir ofan strætisvagna í borgarskipulagsfræðum og almenningssamgöngum. Hraðvagnarnir hafa alveg sérstakar akreinar eða götur fyrir sig og mynda kjarna umferðaræða. Utan við þennan kjarna leggjast svo götur fyrir almenna umferð og hjólandi eða gangandi vegfarendur. Samhliða stofnun hraðvagnakerfis verður strætisvagnakerfið eflt með því að vísa því dýpra inn í íbúðahverfin og tengja þau við hraðvagnaæðar.
„Við erum að vinna að því núna að velja leiðirnar og skilgreina fyrstu áfangana. Maður getur ímyndað sér að til langrar framtíðar þá beri höfuðborgarsvæðið um það bil 40 kílómetra af hágæða almenningssamgöngum en [núna] við erum kannski að tala um fyrstu 10 til 20 kílómetrana; kannski tvær meginleiðir, ein frá norðri til suður og önnur frá austri til vesturs,“ segir Dagur.
„Við erum að ná saman í dag yfirlýsingu sveitarfélaganna um að fara saman í þetta og setjast niður með ríkinu – innanríkisráðuneyti, fjármálaráðuneyti og Vegagerðinni – til að tryggja aðkomu þess og nauðsynlegar lagabreytingar.“
36 mánuði að setja upp hraðvagnakerfi
Spurður hvenær gert er ráð fyrir að fyrstu kílómetrarnir verði lagðir í hraðvagnakerfi á höfuðborgarsvæðinu segir Dagur að tíminn til ákvarðana sé „svolítið núna“. „Við viljum gera það sem allra fyrst. Vegna þess að við sjáum það bæði á aukningu í umferð og þeirri uppbyggingu sem er framundan að við þurfum að mæta henni með nýrri hugsun í samgöngum. Þær þjóðir sem hafa farið hraðast í þetta hafa náð að setja upp hraðvagnakerfi á 36 mánuðum frá því að ákvörðunin er tekin. Ef að við myndum ákveða að fara í léttlestarlausnir þá er það miklu lengri tími.“
„Hugsanlega förum við fyrst í hraðvagna – gerum það eins hratt og hægt er – en lokum ekki á framtíðarmöguleikann á léttlestarkerfinu. Þannig að tími ákvarðana er svolítið núna. Ég bind vonir við að það gerist margt í þessu á þessum vetri og næsta ár,“ sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.