Flokkarnir fimm sem Píratar hyggjast leiða í stjórnarmyndunarviðræður ætla ekki að hittast formlega á fundi fyrr en á mánudag. Birgitta Jónsdóttir tók við stjórnarmyndunarumboði frá Guðna Th. Jóhannessyni forseta á Bessastöðum í gær fyrir hönd Pírata. Skiptar skoðanir eru um hvort þetta hafi verið rétta leiðin en Birgitta hyggist skila umboðinu strax ef viðræður flokkana fimm skila ekki árangri.
Formenn þeirra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi eftir kosningarnar 29. október gengu allir á fund Guðna á skrifstofu forsetaembættisins við Sóleyjargötu í gær. Einhverjir höfðu orð á því að réttast væri að hvíla frekari viðræður, enda stanslausar viðræður í allar áttir búnar að standa yfir í rúman mánuð.
Píratar vilja taka upp þráinn á ný í fimm flokka viðræðum sem fóru út um þúfur undir verkstjórn Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna. Þeir flokkar höfðu allir, nema Vinstri græn, rætt saman aftur í vikunni sem leið, eftir að Katrín skilaði umboði sínu til stjórnarmyndunar. Meðal Vinstri grænna eru efasemdaraddir um þetta samstarf, enda hefur áður slitnað upp úr þessum viðræðum.
Katrín segist ekki átta sig á því hvaða forsendur hafi breyst síðan. Haft er eftir henni í Fréttablaðinu í dag að flokkur hennar ætli að nálgast viðræðurnar af opnum hug.
Birgitta segir að búið sé að reyna til þrautar önnur stjórnarmyndunarform. „Ég held að það sem hafi aðallega breyst frá því að við reyndum síðast sé að fólk hefur haft rými til að fara dýpra ofan í þessi málefni sem fólk hefur upplifað óbrúanleg,“ sagði Birgitta í gær. Hún sér stjórnmálaflokkana á miðjunni fyrir sér sem brýr milli hægri- og vinstrivængja á Alþingi.
Forystufólk í Viðreisn segist heldur hafa viljað að forsetinn byggi til andrými yfir helgina. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, segist hafa lagt það til við Guðna. „Forsetinn hefur hins vegar ákveðið að gera þetta öðruvísi og ég virði ákvörðun hans,“ er haft eftir honum í Fréttablaðinu.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar og oddviti flokksins í Suðvesturkjördæmi, segir það hafa verið óþarfa hjá forsetanum að veita stjórnarmyndunarumboð fyrir helgi. Í þættinum Vikunni í stjórn Gísla Marteins Baldurssonar á RÚV í gærkvöldi sagði Þorgerður að allir væru að tala saman. „Að láta einhvern fá umboð, ég held að það skipti ekki öllu máli. Ég held að það sé óþarfi núna fyrir þessa helgi. Það er ljóst að menn hafa verið að tala saman á síðustu dögum, síðustu vikum. Það er allt að þróast,“ sagði hún.
„Ég held að þessi langi aðlögunartími, pörunartími fram að nýrri ríkisstjórn, sé bara ágætur fyrir þingið. Fólk er að kynnast. Fólk er að þreifa á hverju öðru málefnalega séð. Ég held að sama hver á endanum verður í ríkisstjórn muni þessi tími nýtast þinginu og vonandi vinnubrögðunum til langframa.“
Þingsetning á þriðjudag
Alþingi kemur saman í fyrsta sinn eftir kosningarnar 29. október á þriðjudag á þingsetningu í Alþingishúsinu og í Dómkirkjunni. Þingið hefur verið kallað saman til þess að hægt verði að afgreiða fjárlög næsta árs. Morgunblaðið í dag hefur eftir Guðmundi Árnasyni, ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, að frumvarpið hafi farið í prentun í gær. Það verði svipað að umfangi og undanfarin ár.
Þingið mun starfa eins og venjulega, jafnvel þó flokkarnir hafi ekki komið sér saman um hver skuli sitja í ríkisstjórn á þessu kjörtímabili. Þangað til situr ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar sem starfsstjórn, ef Alþingi samþykkir ekki vantraust á þá ríkisstjórn. „Það er allt undir „control“,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, í sjónvarpsviðtali í gær.
Þingforseti á þessu „stjórnlausa“ þingi verður Steingrímur J. Sigfússon, oddviti Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi, en samkvæmt þingskapalögum skal sá vera þingforseti sem hefur lengsta þingreynslu. Steingrímur hefur lang mesta þingreynslu allra þeirra sem setjast á þing eftir kosningarnar; hann settist fyrst á þing árið 1983.