Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, segir að honum hafi fundist Guðni Th. Jóhannesson hafa gert „mistök“ þegar hann veitti Birgittu Jónsdóttur og Pírötum stjórnarmyndunarumboð á Bessastöðum í gær. Þetta sagði Þorsteinn í Vikulokunum á Rás 1 í dag.
Áður hafa bæði Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, lýst skoðun sinni á útspili Guðna í gær og sagt að heldur hefði hann átt að leyfa þingmönnum og forystufólki flokkanna að hvílast og halda áfram óformlegum þreifingum um helgina.
Þorsteinn sagðist halda að það skilaði litlum árangri að láta einhver einn hafa boðhlaupskeflið og hlaupa á milli kollega sinna í leit að einhverjum sem mundi vilja grípa það, sérstaklega þegar það lægi ekki nokkuð ljóst fyrir hvaða stjórnarmynstur væru líklegust eftir kosningar.
Forseti hefur veitt þremur forystumönnum stjórnmálaflokka stjórnarmyndunarumboð eftir kosningarnar 29. október. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fékk það fyrstur en honum tókst ekki að mynda stjórn. Ekki frekar en Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sem fékk umboð frá forsetanum næst. Eftir að hún kynnti forseta að hennar verkefni hefði mistekist þá ákveð Guðni að veita engum formlegt stjórnarmyndunarumboð og gaf þannig leikinn frjálsan.
Í því umhverfi hófust viðræður Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar á ný áður en formenn Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna að ræddu saman í fyrsta sinn. Þeim þótti það hins vegar óyfirstíganlegt verkefni að sætta ólík sjónarmið flokka sinna. Á meðan Katrín og Bjarni ræddu saman höfðu flokkarnir fjórir sem Katrín mistókst að leiða saman undir verkstjórn Vinstri grænna, að ræða saman á ný.
Píratar hafa nú stjórnarmyndunarumboðið. Forseti veitti umboð til stjórnarmyndunar á ný eftir að hafa hitt alla formenn flokka að máli á föstudag.