Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segist vera „pínu spenntur fyrir næstu skrefum“ í stjórnarmyndunarviðræðum. Flokkur hans er einn þeirra fimm flokka sem funda á morgun undir verkstjórn Pírata. Logi segir ótta við önnur vinnubrögð og hræðslu um að ekki tækist að sætta ólík sjónarmið hafi valdið því að flokkarnir fimm náðu ekki saman í fyrstu atlögu. Logi var viðmælandi Kristjáns Kristjánssonar í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
„Við erum komin með nýjan og öflugan stjórnmálaflokk sem heita Píratar inn á þing. Þau byggja að mörgu leyti á öðrum kúltúr en við erum vön sem höfum starfað í þessum hefðbundnu stjórnmálaflokkum. Það á ekki að hræða okkur. Það á að gleðja okkur að það komi inn ný hugsun og nýjar leiðir til þess að nálgast verkefni,“ sagði Logi í þættinum. „Ég er pínu spenntur fyrir í rauninni fyrir næstu skrefum sem verður það hvernig Birgitta og hennar fólk hjá Pírötum halda á málum.“
Samfylkingin tók þátt í stjórnarmyndunarviðræðum Vinstri grænna, Pírata, Viðreisnar og Bjartar framtíðar undir verkstjórn Katrínar Jakobsdóttur í síðasta mánuði. Þeim viðræðum var slitið og Katrín skilaði stjórnarmyndunarumboði aftur til Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands. Nokkur samhljómur er meðal þeirra þingmanna sem tóku þátt í þessum viðræðum að ekki hafi verið búið að reyna til þrautar að sætta ólík sjónarmið flokkanna.
Logi vonar að vinnan verði kláruð við að koma flokkunum fimm saman sem ætla að hefja stjórnarmyndunarviðræður á nýjan leik á morgun. „Það er alltaf vont að labba frá verki og gefast upp áður en þú hefur reynt allt sem þú getur. Okkur mun líða betur jafnvel þó það komi í ljós að við náum ekki saman ef við höfum fullvissu fyrir því.“
Logi telur að ótti við annan kúltúr og annað yfirbragð annara flokka hafi gert það að verkum að viðræðum flokkana fimm var hætt síðast þegar á það samstarf var reynt. „Og svo á hinn boginn var það hræðslan við það að menn næðu ekki saman um málefnin.“ Spurður hvað hafi komið honum mest á óvart, verandi nýr þingmaður og formaður stjórnmálaflokks síðan eftir kosningarnar 29. október nefnir Logi tortryggni í garð annarra. „Það kemur mér pínu á óvart hversu mikil áhrif það hefur, svona huglægir hlutir eins og hvernig þér líkar við þennan, tortryggni út þennan og slíkir hlutir.“
Búið var að ná „nokkuð skemmtilegri lendingu“ í stjórnarskrármálinu að sögn Loga og byrjað var að þreifa á sjávarútvegsmálum. „Eftir stendur að allir flokkarnir lofuðu gríðarlegri uppbyggingu innviða og það er nauðsynlegt. En síðan eru kannski skiptar skoðanir um með hvaða hætti eigi að fjármagna þetta. Á milli flokkana – lengst til vinstri og lengst til hægri í þessu mynstri – eru bara eðlilega ólíkar skoðanir á því. Og við þurfum að mætast einhvers staðar á miðri leið.“
Þátttaka Samfylkingarinnar ekki ólýðræðisleg
Logi var kjörinn varaformaður Samfylkingarinnar á síðasta landsfundi flokksins þegar Oddný Harðardóttir var kjörinn formaður. Eftir kosningaósigur flokksins 29. október síðastliðinn sagði Oddný af sér sem formaður en situr enn sem þingmaður úr Suðurkjördæmi. Logi varð þess vegna formaður flokksins strax í vikunni eftir að hafa hlotið kjör á Alþingi í fyrsta sinn.
Oddný hafði sagt strax eftir að úrslit kosninganna voru ljós að Samfylkingin myndi ekki geta setið í ríkisstjórn með svo lítið fylgi miðað við úrslit fyrri Alþingiskosninga. Eftir að Logi varð formaður hefur afstaða flokksins breyst. Hann segir Oddnýju aðeins hafa farið fram úr sér í hita leiksins.
„Ég held að hún [Oddný] hafi látið þessi orð falla svona eftir þetta þung högg sem við fengum. Það held ég að flestir hefðu gert í hita augnabliksins. En síðan þegar við fórum að skoða stöðuna og möguleikana þá sáum við strax að þetta yrði flókið og hinn minnst bútur gæti skipt máli í þessu samhengi. Það hefur svo komið á daginn.“
Loga þykir það ekki ólýðræðislegt að Samfylkingin, með svo lítið fylgi á landsvísu, komi að myndun ríkisstjórnar. „Á endanum skiptir það máli að það verði til starfhæfur meirihluti á þinginu og þá eru þingmenn taldir en ekki endilega fylgi flokkanna,“ segir hann.