Sunna Gunnars Marteinsdóttir, fyrrverandi aðstoðarmaður Gunnars Braga Sveinssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur verið ráðin til starfa hjá Mjólkursamsölunni, MS, sem verkefnastjóri í upplýsinga- og fræðslumálum. Sunna segir í samtali við Kjarnann að um sé að ræða tímabundið verkefni.
Sunna var ráðin aðstoðarmaður Gunnars Braga í utanríkisráðuneytið í september 2013. Hún fylgdi honum svo yfir í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið í apríl síðastliðnum. Sunna er með BA gráðu í almannatengslum frá háskólanum í Westminster og hefur stundað nám í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands. Áður en hún varð aðstoðarmaður Gunnars Braga starfaði hún í þrjú ár sem skrifstofustjóri þingflokks Framsóknarflokksins.
Það vakti athygli skömmu fyrir kosningar þegar Gunnar Bragi skipaði Sunnu og Viggó Jónsson, aðalfulltrúa Framsóknarflokksins í sveitarstjórn Skagafjarðar, í stjórn Matís. Stjórnarmönnum var vikið úr stjórninni daginn fyrir aðalfund í október, og nýir tilnefndir, þar á meðal Sunna.
Sunna gerir ráð fyrir því að vera áfram í stjórn Matís meðan hún starfar hjá Mjólkursamsölunni, og segist aðspurð hafa látið stjórnarformann og stjórnendur hjá Matís vita af verkefninu hjá MS svo það sé allt uppi á borðum.
Sunna er ekki eini aðstoðarmaður ráðherra sem hefur verið skipuð í stjórn stofnunar eða fyrirtækis í eigu ríkisins. Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, situr til að mynda í stjórn Íslandspósts, og Matthías Imsland, aðstoðarmaður Eyglóar Harðardóttur og áður Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar, situr í stjórn Isavia. Þá réði Lilja Alfreðsdóttir Hrannar Pétursson í stjórn Íslandsstofu skömmu fyrir kosningar.