Fulltrúar Bjartrar framtíðar, Pírata, Viðreisnar, Vinstri grænna og Samfylkingarinnar ræddu í dag saman um myndun ríkisstjórnar. Samkvæmt fréttatilkynningu frá Pírötum gengu umræðurnar vel og gert er ráð fyrir að fulltrúar flokkana fimm fundi aftur á morgun. Ákvörðun um hvort ráðist verði í formlegar stjórnarmyndunarviðræður mun liggja fyrir í lok þessarar viku.
Birgitta Jónsdóttir, fulltrúi Pírata á Alþingi, fékk á föstudag umboð forseta Íslands til þess að mynda ríkisstjórn. Tveir stjórnmálaleiðtogar hafa áður fengið þetta umboð eftir kosningarnar 29. október, þau Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Píratar gerðu það strax ljóst að þeir vildu taka upp þráinn á ný í fimm flokka viðræðum sem fóru út um þúfur undir verkstjórn Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna. Þeir flokkar höfðu allir, nema Vinstri græn, rætt saman aftur í síðustu viku, eftir að Katrín skilaði umboði sínu til stjórnarmyndunar.
Birgitta sagði eftir fund sinn með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, á föstudag að mikilvægt væri að finna þjóðarsáttartón því framundan séu mjög erfið mál sem muni koma til kasta stjórnmálamanna að leysa. Hún sagði að ef hægt yrði að ná flokkum sem eru lengst til vinstri og lengst til hægri að þá séum við komin með „litla þjóðstjórn“. Þar átti hún augljóslega við Vinstri græn og Viðreisn.