Staða íslenskra nemenda hefur aldrei verið verri á öllum þremur sviðum PISA könnunarinnar en árið 2015. Þetta eru niðurstöður PISA fyrir árið 2015, en skýrslan var kynnt í dag. Hún nær til hálfrar milljóna 15 ára gamalla nemenda í OECD ríkjum.
Staða íslenskra barna er áberandi verri en á öllum hinum Norðurlöndunum. Í Noregi, Danmörku og Svíþjóð hefur þróunin í PISA heldur batnað síðustu ár en hún hefur versnað í Finnlandi, sem þó er með mun betri útkomu en hin Norðurlöndin.
PISA könnunin mælir læsi á náttúruvísindi, stærðfræðilæsi og lesskilning hjá 15 ára börnum. Læsi á náttúruvísindi er minna hér á landi en á öðrum Norðurlöndum. Það gildir um alla undirþætti, færnisvið og þekkingarsvið náttúruvísinda. Mikill meirihluti OECD ríkja stendur betur en Ísland í læsi á náttúruvísindi. Staðan á höfuðborgarsvæðinu er almennt séð betri en á landsbyggðinni. Fyrst var þetta mælt í könnun árið 2006, og milli áranna 2006 og 2015 lækkaði meðalatalið í dreifbýli um 35 stig en í þéttbýli utan höfuðborgarsvæðisins um 22 stig. Lækkunin er minnst á höfuðborgarsvæðinu, 10 stig.
Þegar kemur að stærðfræði eru börn við lok grunnskóla með lakara læsi en í meirihluta OECD ríkja og lægra en á öllum hinum Norðurlöndunum. Á höfuðborgarsvæðinu er þetta svipað meðaltalinu innan OECD en fyrir utan höfuðborgarsvæðið er stærðfræðilæsi mun lakara. Lækkunin í stærðfræðilæsi frá árinu 2003 nemur tæpu heilu skólaári, þannig að fleiri nemendur eru á lægri hæfnisþrepum en færri í þeim efri, að því er kemur fram í skýrslunni.
Ísland var um miðjan hóp Norðurlandanna þegar kemur að lesskilningi árið 2000, en er nú neðst. Lesskilningur hefur líkt og stærðfræðilæsi lækkað um tæpt skólaár. Ísland er neðarlega í hópi OECD ríkja og 22% nemenda eiga erfitt með að lesa sér til gagns. Stúlkur eru á svipuðum stað og meðaltalið hjá OECD ríkjum, en hjá drengjum er hlutfall þeirra sem eru á lægri hæfnisþrepum meira en annars staðar. Almennt er staðan lakari í dreifbýli en á höfuðborgarsvæðinu.