Landsframleiðsla á þriðja ársfjórðungi ársins 2016 jókst um 10,2 prósent á Íslandi frá sama ársfjórðungi ársins áður. Það er mesta aukning sem mælst hefur á landsframleiðslu milli sömu ársfjórðunga á einu ári frá því á hámarki bankagóðærisins fyrir hrun, eða á fjórða ársfjórðungi 2007. Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar.
Þar segir að magnaukning landsframleiðslunnar nú skýrist að verulegu leyti af framlagi utanríkisviðskipta en útflutningur jókst að raungildi um 16,4 prósent samanborið við sama tímabil árið 2015. Þar skiptir mestu máli gríðarleg, og áframhaldandi aukning ferðamanna sem sækja Ísland heim. Í nýlegri frétt á Gestur.is kom fram að búist sé við 40,3 prósent aukningu á fjölda farþega um Keflavíkurflugvöll á þessu ári frá því sem var á árinu 2015. Í farþegaspá Isavia fyrir næsta ár er reiknað með 24,7 prósent fjölgun erlendra ferðamanna á milli ára. Gangi sú spá eftir verður heildarfjöldi erlendra brottfarafarþega um 2.241 þúsund alls.
Hagstofan segir að hagvöxtur á fyrstu níu mánuðum ársins hafi samtals aukist um 6,2 prósent að raungildi þegar hann er borinn saman við sama tímabil árið 2015. Á sama tíma jukust þjóðarútgjöld, neysla og framkvæmdir, um 9,3 prósent. Þar af jókst einkaneysla um 6,7 prósent, samneyslan um 1,1 prósent og fjárfesting um heil 27,4 prósent. Útflutningur jókst um tíu prósent en innflutningur umtalsvert meira, eða um 16,6 prósent.
Aukin einkaneyslu og innflutningur sést vel á tölum um vöruviðskipti í nóvember, sem Hagstofan birti í gær. Þar kom fram að Íslendingar fluttu inn vörur fyrir 53,5 milljarða króna í mánuðinum en út vörur fyrir 41,2 milljarða króna. Vöruviðskiptin voru því óhagstæð um 12,3 milljarða króna. Til samanbuðar voru þau hagstæð um 800 milljónir króna í nóvember 2015. Viðsnúningurinn á einu ári er því rúmlega 13 milljarðar króna. Ástæða þessa er samblanda af mikilli styrkingu krónunnar sem gerir það að verkum að erlendar vörur eru nú mun ódýrari og aukinn kaupmáttur sem leiðir til aukningar á einkaneyslu. Þjónustuviðskipti vega þennan mun síðan upp, enda tekjur Íslendinga af útfluttri þjónustu, að langmestu leyti vegna ferðaþjónustu, eru mun hærri en innflutningur á henni. Þjónustujöfnuður var til að mynda jákvæður um 121,6 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi ársins 2016. Þar af var 72,8 milljarðar króna af afgangnum vegna ferðaþjónustu. Alls var þjónustujöfnuður á fyrstu níu mánuðum ársins 2016 um 216 milljarðar króna. Þar af komu 123,1 milljarðar króna til vegna afgangs að viðskiptum með ferðaþjónustu.