Íslandsbanki hefur verið valinn besti bankinn á Íslandi fyrir árið 2016 af tímaritinu The Banker, sem gefið er út af Financial Times. Því er Íslandsbanki handhafi tveggja verðlauna af þremur sem alþjóðleg fjármálatímarit veita íslenskum bönkum fyrir að vera bestir.
Í fyrra útnefndi eitt tímarit Íslandsbanka, bestan, annað Arion banka og það þriðja Landsbankann. Þeir voru því allir bestir það árið. Svo er ekki lengur.
Með valinu endurheimtir Íslandsbanki viðurkenningu The Banker á íslenskum banka frá Arion banka, sem hlaut hana í fyrra. Árið áður, 2014, hafði Íslandsbanki nefnilega hlotið nafnbótina. Verðlaunin voru veitt í gærkvöldi að viðstöddum fulltrúum yfir 100 banka víðs vegar að úr heiminum.
Til viðbótar var Íslandsbanki valinn banki ársins af alþjóðlega fjármálatímaritinu Euromoney í júlí síðastliðnum. Það var fjórða árið í röð sem tímaritið útnefndi bankann þann besta á Íslandi.
Auk The Banker og Euromoney þá verðlaunar alþjóðlega fjármálaritið Global Finance Magazine einnig íslenska banka fyrir að vera besta. Síðastliðin þrjú ár hefur Landsbankinn einokað þau verðlaun.
Sækja þarf sérstaklega um að taka þátt í öllum ofangreindum verðlaunum.