Eigendur íslenska tölvuleikjafyrirtækisins CCP eru sagðir íhuga sölu á fyrirtækinu, samkvæmt frétt frá Bloomberg. Bloomberg fullyrðir að eigendunum hafi borist áhugavert tilboð sem þeir séu nú að skoða.
Bloomberg segir að Novator Partners, General Catalyst Partners og New Enterprise Associates, eigendur í CCP, séu að skoða hvort fara eigi lengra með söluna eða ekki, og segir að fyrirtækið gæti verið 900 milljóna evra virði, sem jafngilda um 106 milljörðum íslenskra króna. Fulltrúar CCP, General Catalyst og Novator neituðu að tjá sig um málið við Bloomberg, og New Enterprise svaraði ekki fyrirspurnum.
Rúmt ár er liðið frá því að tilkynnt var um fjárfestingu í CCP upp á 30 milljónir bandaríkjadala til að efla starfsemi fyrirtækisins á sviði sýndarveruleika. Fjárfestingin var leidd af New Enterprise Associates, sem er stærsti framtakssjóður heims, og Novator Partners, sem er að mestu í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, tók þátt í hlutafjáraukningunni. Á sama tíma kynnti CCP drög að samningi um byggingu nýss húss undir starfsemina í Vatnsmýrinni.
Bloomberg fullyrðir í frétt sinni að þegar sú hlutafjáraukning átti sér stað hafi virði fyrirtækisins verið metið 300 milljónir bandaríkjadala.