Bandaríska leyniþjónustan CIA hefur komist að þeirri niðurstöðu að Rússar hafi haft afskipti af nýliðnum forsetakosningum í Bandaríkjunum til þess að reyna að hjálpa Donald Trump að komast í Hvíta húsið. Þetta hefur Washington Post eftir ónefndum, háttsettum embættismanni innan CIA.
Þetta eru niðurstöður leynilegrar athugunar CIA, sem kemst að því að tilgangur Rússa hafi ekki aðeins verið að draga úr trausti á bandarískt kosningakerfi heldur beinlínis að hjálpa Donald Trump. Búið er að finna einstaklinga sem eru sagðir tengjast rússneskum stjórnvöldum, sem hafi látið WikiLeaks í té þúsundir tölvupósta frá landsnefnd Demókrataflokksins og fleirum, til dæmis fólki innan úr herbúðum Hillary Clinton.
Starfslið Trump vísaði þessum niðurstöðum á bug í stuttri yfirlýsingu í gærkvöldi að bandarískum tíma. „Þetta er sama fólkið og sagði að Saddam Hussein byggi yfir gereyðingarvopnum. Kosningunum lauk fyrir löngu síðan með einum stærsta kjörmannaráðssigri í sögunni. Það er kominn tími til að halda áfram og gera Bandaríkin frábær aftur,“ stóð í yfirlýsingunni. Trump hefur sjálfur sagt að hann hafi enga trú á því að Rússar hafi skipt sér nokkuð af málum. Tölvupóstarnir sem voru birtir á WikiLeaks hefðu getað tengst Rússlandi, en líka Kína eða bara einhverju fólki í New Jersey.
Málið var kynnt fyrir öldungardeildarþingmönnum í síðustu viku. Það er hins vegar ekki algjör samstaða um málið innan leyniþjónustustofnana, til dæmis vegna þess að það eru engar beinar upplýsingar um það að embættismenn rússneskra stjórnvalda hafi stýrt því að tölvupóstarnir færu til WikiLeaks. Fólkið sem hafi stjórnað hafi ekki verið starfsmenn ríkisstjórnarinnar, heldur milliliðir.
Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, hefur sagt að rússnesk stjórnvöld séu ekki uppspretta lekans.
Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur fyrirskipað að möguleg tölvuinnbrot Rússa í kosningabaráttunni verði skoðuð til fulls, og fulltrúadeild þingsins hefur ýtt á það að stjórnvöld upplýsi almenning um það nákvæmlega hvað stjórnvöld í Moskvu eigi að hafa gert til að hafa áhrif á kosningarnar.