Það er kannski tilefni til þess að skoða myndun utanþingsstjórnar, segir Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata. Hún segist ekki vilja þjóðstjórn, það væri ávísun á engar breytingar, og að ekki sé komið að því að það þurfi að kjósa aftur.
Þetta kom fram í máli hennar að loknum fundi hennar, Smára McCarthy og Einars Brynjólfssonar með Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands á Bessastöðum. Þar skiluðu þau hinu táknræna umboði til að mynda ríkisstjórn.
Birgitta sagði að um það bil 90% hafi verið komið í vinnu flokkanna fimm sem slitu viðræðum sínum í dag. „Það vantaði upp á vilja til að málamiðla í mjög stórum málum, sem við vorum þó komin mjög langt með,“ sagði Birgitta. Hún sagði það hafa komið Pírötum á óvart að ekki hafi allir treyst sér til að halda áfram, en trúir því að allir hafi lagt sig fram af heilum hug.
„Við náðum merkilegt nokk samstöðu um hluti sem ég hélt að yrði mjög erfitt að ná samstöðu um,“ sagði hún og nefndi að allir flokkar hefðu verið sammála um að forgangsraða í menntamál, heilbrigðismál og innviðauppbyggingu. Þá hafi verið komin lausn á stjórnarskrármálum og þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandið, og allir hefðu verið sammála um stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Hún sagðist vonast til þess að þessi mikla vinna yrði grundvöllur til samvinnu flokkanna um ólík málefni.
Birgitta vildi ekki kenna neinum einum flokki um að viðræðunum hafi verið slitið. Hún sagði formenn flokkanna hafa gert með sér heiðursmannasamkomulag um að fara ekki að kenna hverju öðru um.