Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hyggst ekki veita neinum stjórnarmyndunarumboðið að sinni en eins og kunnugt er hafa Birgitta Jónsdóttir, Smári McCarthy og Einar Brynjólfsson tilkynnt forsetanum um að ekki hafi tekist að mynda ríkisstjórn.
Guðni hefur hvatt forystufólk stjórnmálaflokkanna til að sýna ábyrgð og bregðast við þeirri alvarlegu stöðu sem komin er upp í íslenskum stjórnmálum. Hann gaf flokkunum þessa viku til að ná saman um myndun ríkisstjórnar. „Síðdegis í dag tilkynntu Birgitta, Einar og Smári mér að þær viðræður hefðu ekki leitt til myndunar ríkisstjórnar. Á fundi okkar á Bessastöðum skilaði hún mér umboði til stjórnarmyndunar. Í dag hef ég rætt við formenn annarra stjórnmálaflokka á Alþingi um þá alvarlegu stöðu sem upp er komin. Rúmar sex vikur eru liðnar frá kosningum þegar ráðuneyti Sigurðar Inga Jóhannssonar missti meirihluta sinn á þingi og hann baðst lausnar fyrir hönd þess. Nú hafa formenn eða fulltrúar þriggja stærstu flokkanna á Alþingi allir haft umboð forseta til stjórnarmyndunar. Ýmsar leiðir hafa verið ræddar og reyndar. Í ljósi þeirra sjónarmiða sem fram komu í viðræðum mínum við flokksleiðtoga í dag hef ég ákveðið að veita engum þeirra umboð til stjórnarmyndunar að sinni. Þess í stað hvatti ég þá til að ráða ráðum sínum og kanna með óformlegum viðræðum sín á milli hvaða leiðir eru enn mögulegar til myndunar ríkisstjórnar sem njóti meirihlutastuðnings á Alþingi eða geti að minnsta kosti varist þar vantrausti. Í samtölum mínum við forystufólk flokkanna nefndi ég einnig þau brýnu verkefni sem bíða úrlausnar á Alþingi og krefjast góðrar samvinnu og samstöðu. Loks minnti ég flokksleiðtogana á þá ábyrgð þeirra og skyldu að ná samkomulagi um myndun ríkisstjórnar. Ég tjáði þeim að ég vænti tíðinda í þeim efnum í þessari viku,“ segir í tilkynningu forsetaembættisins.
Nú hafa þrjár formlegar tilraunir til að mynda ríkisstjórn siglt í stranda. Fyrst fékk Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, umboð til að mynda ríkisstjórn en sú tilraun gekk ekki upp, en viðræður fóru þá fram milli Sjálfstæðisflokksins, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar. Í tvíganga hafa svo viðræður fimm flokka runnið út í sandinn. Fyrst undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, og síðan undir forystu Birgittu Jónsdóttur.