Kirkjuráð vill að ríkið hætti að taka til sín hluta af innheimtum sóknargjöldum, eins og gert hefur verið frá hruni, og að kirkjan fái sóknargjöld að fullu greidd frá og með næsta ári. Ráðið hefur sent umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis auk þess sem bréfið þar sem þessa er krafist var sent til forsætisráðherra og fjármálaráðherra í lok nóvember.
„Í ljósi afkomu ríkissjóðs standa engin rök til þess lengur að innheimtum sóknargjöldum sé ekki skilað að fullu til rétthafa sinna. Ríkissjóður hefur frá hruni fjármálakerfisins í október 2008 haldið eftir hluta af fé því sem hann hefur innheimt fyrir rétthafa sóknargjalda,“ segir í bréfinu. Árlega hafi verið gefin út yfirlýsing um að fjármál ríkisins hafi komist í uppnám og ríkt hafi neyðarástand sem heimili ríkinu að taka til sín fjármuni sem það innheimtir fyrir aðra.
„Engin leið er til að réttlæta þetta lengur og því getur kirkjuráð ekki fallist á að lögum nr. 91/1987 um sóknargjöld o.fl. verði breytt svo sem gert hefur verið til þessa með lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum.“ Kirkjuráð gerir þá kröfu að ákvæðum fjárlagafrumvarpsins verði hagað í samræmi við þetta, segir í bréfinu að lokum.
Í fjárlagafrumvarpinu sem nú er til meðferðar í þinginu kemur fram að viðræður standi yfir milli ríkis og kirkju um fjárhagsleg samskipti þeirra á milli. „Vilji ríkisins stendur til að einfalda aðkomu ríkisins að fjárveitingum og auka sjálfstæði Þjóðkirkjunnar til ráðstöfunar fjármuna.“ Þá er bent á það að miklar breytingar hafa orðið á trúmálum á undanförnum árum. Árið 2008 hafi verið 27 trú- og lífsskoðunarfélög skráð en á þessu ári séu þau 44. Mesta breytingin á skráningum fólks hefur verið úr kirkjunni, en tæplega fimmtán þúsund manns hafa skráð sig úr kirkjunni á þessum tíma.