Þingflokkar Pírata og Samfylkingarinnar samþykktu á fundum sínum í gærkvöldi að hefja formlegar viðræður um myndun fimm flokka ríkisstjórnar. Hinir flokkarnir sem eiga aðkomu að viðræðunum, Viðreisn, Björt framtíð og Vinstri græn, munu taka ákvörðun um framhaldið í dag. Óformlegar viðræður hafa staðið yfir í tíu daga.
Formenn flokkanna fimm funduðu í gærkvöldi og í kjölfar fóru fram þingflokksfundir hjá þeim öllum. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans stendur til að halda þingflokksfundi hjá Vinstri grænum áfram fyrri partinn í dag og þar á að taka ákvörðun gagnvart því hvort farið verði í formlegar viðræður eða ekki. Forystufólk flokanna fimm ætlar síðan að funda í hádeginu í dag og búist er við að þar verði tekin lokaákvörðun um hvort að formlegar viðræður muni hefjast á morgun, þriðjudag.
Þingflokkar Viðreisnar og Bjartrar framtíðar funduðu fyrst einir og sér í gær en síðan saman. Flokkarnir tveir hafa verið í nánu samstarfi í þeim stjórnarmyndunarviðræðum sem þegar hafa átt sér stað. Fyrir liggur að lengst er á milli Vinstri grænna og Viðreisnar í nokkrum lykilmálum sem þarf að ná málamiðlun í. Þar ber meðal annars að nefna sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál og tekjuöflunarleiðum sem þyrfti að fara til að auka ríkisútgjöld verulega, sérstaklega vegna aukinna framlaga til velferðarmála og innviðauppbyggingar. Slík málamiðlun lá ekki fyrir í gær, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Píratar, sem halda á stjórnarmyndunarumboðinu, hafa verið mjög jákvæðir út á við um hvort til muni takast að mynd fimm flokka ríkisstjórn. Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður þeirra, sagði í sjónvarpsþættinum Vikunni á föstudagskvöld að hún teldi 90 prósent líkur á að það myndi nást saman. Smári McCarthy, þingmaður Pírata, sagði í þættinum Vikulokin á Rás 1 um helgina að hann sæi ekki annað en að myndun ríkisstjórnarinnar myndi ganga. Í sama þætti lýsti hins vegar Björn Valur Gíslason, varaformaður Vinstri grænna, yfir furðu sinni á því að viðræðurnar nú væri komnar miklu lengra en síðast. hann tiltók þó að hann væri ekki beinn þátttakandi í viðræðunum.