Stjórnarmyndunarviðræðum fimm flokka, Pírata, Bjartrar framtíðar, Viðreisnar, Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, verður ekki haldið áfram. Það kom í ljós að loknum fundi forystumanna flokkanna.
Forystumenn flokkanna fimm áttu að funda klukkan 12 í dag en fundinum var frestað um klukkustund að beiðni Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG. Þingflokkur VG fundaði fyrir hádegið og dróst sá fundur á langinn. Forystumennirnir settust því á fund klukkan 13 og fundi þeirra var að ljúka.
Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, hefur áður sagt að hún myndi skila umboðinu til myndunar ríkisstjórnar til Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, ef þessi tilraun tækist ekki. Það hyggst hún gera klukkan fimm í dag.
Á fundum í gær höfðu bæði þingflokkar Pírata og Samfylkingarinnar samþykkt að fara í formlegar stjórnarmyndunarviðræður þessara fimm flokka. Hinir þrír flokkarnir tóku ekki slíkar ákvarðanir. Björt Ólafsdóttir, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, sagði þó í morgun að fjórir af fimm flokkum væru „mjög samstíga og framsýnir“ og átti þar við alla flokka nema Vinstri græn. Það væri ljóst að VG væri með töluvert aðra stefnu í þessum málum en hinir fjórir flokkarnir.
Þetta er þriðja tilraunin til að mynda ríkisstjórn sem fer út um þúfur. Fyrst fékk Bjarni Benediktsson umboð til að mynda ríkisstjórn, sem hann ákvað að reyna með Viðreisn og Bjartri framtíð. Það gekk ekki eftir og Katrín Jakobsdóttir fékk umboðið og reyndi að mynda ríkisstjórn með Viðreisn, Bjartri framtíð, Samfylkingunni og Pírötum. Það gekk ekki heldur. Þá fékk enginn formaður umboð til að mynda ríkisstjórn um nokkurt skeið, þar til Birgitta fékk umboðið.