Áherslur Vinstri grænna í ríkisfjármálum, sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum stóðu fjarri áherslum Viðreisnar, Bjartrar framtíðar, Samfylkingar og Pírata. Þess vegna náðist ekki samstaða um myndun fimm flokka ríkisstjórnar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá þingflokki Viðreisnar.
Þar segir að samtalið sem átt hafi sér stað í viðræðunum hafi verið gagnlegt og sýnt að raunverulegur vilji sé til umbóta á íslensku samfélagi hjá öllum flokkunum sem þátt í þeim tóku. „Því miður náðist þó ekki samstaða um mikilvæg efnisatriði. Einkum voru það áherslur VG í ríkisfjármálum, sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum sem stóðu fjarri áherslum hinna flokkanna,“ segir í tilkynningunni.
Þar er Birgittu Jónsdóttur, þingflokksformanni Pírata, og samstarfsfólki hennar hrósað sérstaklega fyrir vandaða verkstjórn í viðræðunum.
Píratar birtu tilkynningu á vef sínum fyrr í dag, eftir að viðræðum var slitið, þar sem þeir segja að mikil málefnavinna hafi farið fram undanfarna tíu daga í viðræðum flokkanna fimm. Áhersla hafi verið lögð á erfiðustu viðfangsefnin. „Mjög lítið bar á milli og sátt hafði náðst um flest málin.“
Píratar segjast hafa sýnt það í stjórnarmyndunarviðræðunum að þar fari flokkur sem beri hag almennings fyrir brjósti og sé tilbúinn til að gera málamiðlanir án þess að fara yfir eigin sársaukaþröskuld.
Vinstri græn sendu einnig frá sér tilkynningu fyrr í dag, þar sem sagt er að viðræðurnar hafi verið gagnlegar þrátt fyrir að ekki hafi náðst samstaða um að halda þeim áfram að sinni. Flokkurinn hafi talið brýnt að gerðar verði breytingar í þágu umbóta í heilbrigðis-, mennta- og velferðarmálum og við uppbyggingu innviða. „Það er mat þingflokksins að til að mæta lágmarksþörfum og koma til móts við ákall úr samfélaginu í þessum efnum þurfi, varlega áætlað, á þriðja tug milljarða króna.“