Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, segir að það sé ekki sanngjarnt og ekki satt þegar því sé haldið fram að aðeins einn flokkur af fimm hafi viljað stórauka fé til heilbrigðismála, menntamála og annarra innviða.
Þetta kemur fram í færslu sem Birgitta skrifar á Facebook-síðu sína. Hún segist vilja halda því til haga að allir fimm flokkarnir sem tóku þátt í síðustu stjórnarmyndunarviðræðum – Viðreisn, Björt framtíð, Vinstri græn, Samfylkingin og Píratar – hafi verið sammála um að stórauka fé til heilbrigðismála og menntamála og aðra innviði. „Við vorum komin mjög langt með að sameinast um leiðir til að fjármagna það. Það er ekki sanngjarnt að segja að bara einn flokkur hafi barist fyrir því, né er það satt.“
Birgitta segir að nú ráði þingið. Hún hvetji því almenning til að fylgjast mjög vel með því hvernig breytingatillögur verði lagðar fram við t.d. fjárlög og hvernig þingmenn munu greiða atkvæði með þeim.