Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, útilokar ekki að Vinstri græn taki sæti í minnihlutastjórn. Staðan sé þannig að fólk sé farið að hugsa út fyrir kassann og skoða slíkar leiðir. „Það var auðvitað lögð mikil áhersla á myndun meirihlutastjórnar í upphafi. Nú hafa hugmyndir um myndun til dæmis minnihlutastjórnar skotið upp kollinum og ég held að það sé eitthvað sem allir flokkarnir hljóta að velta fyrir sér.“ Þetta kemur fram á vef RÚV. Katrín vonast til þess að ný ríkisstjórn verði mynduð fyrir áramót.
Viðræðum fimm flokka um myndun ríkisstjórnar undir forystu Pírata lauk í gær þegar ljóst væri að ekki myndi nást saman um lykilmál. Þar munaði mestu á milli Viðreisnar annars vegar og Vinstri grænna hins vegar m.a. í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum og í ríkisfjármálum. Vinstri græn hafa lagt höfuðáherslu á mikla aukningu útgjalda til að fjárfesta í velferðarmálum og innviðum og á að fjármagna þá aukningu með nýjum sjálfbærum tekjum. Á meðal þeirra tillagna sem Vinstri græn lögðu til var auðlegðarskattur á stóreignafólk, að taka upp sykurskatt á nýjan leik auk þess sem flokkurinn hefur einnig viðrað hugmyndir um hátekjuskatt. Katrín sagði hins vegar við RÚV að Vinstri græn hafi ekki viljað hækka almennan tekjuskatt til að ná markmiðum sínum.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands,hvatti stjórnmálaflokkanna til að kanna möguleikann á myndun minnihlutastjórnar eftir að Píratar skiluðu stjórnarmyndunarumboði sínu í gær. „Í ljósi þeirra sjónarmiða sem fram komu í viðræðum mínum við flokksleiðtoga í dag hef ég ákveðið að veita engum þeirra umboð til stjórnarmyndunar að sinni. Þess í stað hvatti ég þá til að ráða ráðum sínum og kanna með óformlegum viðræðum sín á milli hvaða leiðir eru enn mögulegar til myndunar ríkisstjórnar sem njóti meirihlutastuðnings á Alþingi eða geti að minnsta kosti varist þar vantrausti. Í samtölum mínum við forystufólk flokkanna nefndi ég einnig þau brýnu verkefni sem bíða úrlausnar á Alþingi og krefjast góðrar samvinnu og samstöðu. Loks minnti ég flokksleiðtogana á þá ábyrgð þeirra og skyldu að ná samkomulagi um myndun ríkisstjórnar. Ég tjáði þeim að ég vænti tíðinda í þeim efnum í þessari viku,“ sagði í tilkynningu forsetaembættisins.