Ísland er eina landið á Norðurlöndunum þar sem fleiri börn en fullorðnir búa við fátækt. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Barnaheill – Save the Children um fátækt barna og tengsl bágs efnahags við skort á tækifærum og menntun.
Ellefu prósent fullorðinna á Íslandi eiga á hættu að búa við fátækt eða félagslega einangrun, en fjórtán prósent barna. Það eru um ellefu þúsund börn, og frá árinu 2008 hefur lítill árangur náðst í að uppræta fátækt meðal barna á Íslandi, samkvæmt skýrslunni.
Í Evrópu utan Norðurlandanna er það einnig þannig að fleiri börn en fullorðnir búa við fátækt. Skortur á menntun er einn helsti áhættuþáttur fátækta, en meðaltal brottfalls úr námi er ellefu prósent. Markmið er að ná þessu hlutfalli niður í tíu prósent, en ellefu lönd, þar á meðal Ísland, eru mjög langt frá því. Á Íslandi er brottfall 18,8%. Miðað við þróunina hér á landi mun brottfall ekki fara niður í 10 prósent fyrr en árið 2030.
Í öllum Evrópuríkjum, nema Íslandi, eru 30 til 80 prósent meiri líkur á því að börn búi við fátækt ef foreldrar þeirra hafa litla menntun. Á Íslandi eru líkurnar hins vegar 18%. Á Íslandi eiga svo 15% þeirra sem eru á vinnumarkaði á hættu að búa við fátækt, en það er hærra hlutfall en meðaltal Evrópu.
Barnaheill skora á stjórnvöld að tryggja gjaldfrjálsa gæðamenntun fyrir öll börn, minnka brottfall úr skólum og styrkja mennta- og velferðarkerfið ásamt beinum inngripum fyrir börn sem eiga við erfiðleika að etja. Þá vilja Barnaheill að stjórnvöld tryggi aðgang allra barna að tómstundum, listum og skemmtunum, að öll börn geti vænst þess að hafa tækifæri til menntunar, heilsu og lífsfyllingar og ekkert barn muni búa við fátækt. Samtökin vilja að stjórnvöld lengi fæðingarorlof og tryggi að öll börn geti farið í námsumhverfi á vegum sveitarfélaga þegar fæðingarorlofi lýkur, og að fjárfesting í börnum sé höfð að leiðarljósi í fjárlagagerð á öllum stjórnsýslustigum.