Siv Friðleifsdóttir, fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins, var ráðin í starf sérfræðings á skrifstofu félagsþjónustu í félags- og húsnæðismálaráðuneytinu í vor. Ráðningin tók gildi 1. apríl síðastliðinn og starfið var auglýst. Alls sóttu 36 um það. Samkvæmt svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um málið var það skrifstofustjóri félagsþjónustu sem tók ákvörðun um ráðninguna í samráði við ráðuneytisstjóra.
Siv var fengin til að starfa sem ráðgjafi fyrir félags- og húsnæðismálaráðuneytið á árinu 2014. Um var að ræða aðstoð vegna norræns samstarfs, formennsku í norrænu ráðherranefndinni og vinnu í velferðarvaktinni sem stofnuð var að frumkvæði stjórnvalda snemma árs 2009 til að fylgjast með afleiðingum efnahagshrunsins á heimilin í landinu. Alls fékk Siv greiddar 19.670.014 krónur frá upphafi árs 2014 og fram í desember 2015 fyrir ráðgjafastörf sín. Félags- og húsnæðismálaráðherra er Eygló Harðardóttir.
Gerð krafa um víðtæka þekkingu á norrænu samstarfi
Starf sérfræðings á skrifstofu félagsþjónustu var auglýst í febrúar síðastliðnum. Í auglýsingunni var krafist háskólaprófs eða sambærilegrar menntunar á sviði félagsmála. Þá sagði einnig í auglýsingunni að mikilvægt væri „að viðkomandi sérfræðingur hafi víðtæka þekkingu og reynslu af opinberri stjórnsýslu og samstarfi þvert á ráðuneyti. Enn fremur er æskilegt að hann hafi sérþekkingu á þeim málaflokkum sem heyra undir skrifstofu félagsþjónustu. Þá er einnig gerð krafa um víðtæka þekkingu og reynslu af alþjóðlegum samskiptum, ekki síst norrænu samstarfi innan stjórnsýslunnar.“
Siv er með BS-próf í sjúkraþjálfun. Hún sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn frá 1995 til 2013 og var tvívegis ráðherra. Siv var umhverfisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda 1999 til 2004 og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 2006 til 2007.
Auglýsingin um starf sérfræðings á skrifstofu félagsþjónustu vakti athygli tveggja háskólamenntaðra kvenna sökum þess að í henni væri starfsreynsla gerð að veigameiri skilyrði en menntun. Þær skrifuðu grein sem birtist á Vísi.is um málið í febrúar þar sem þær fjölluðu um þau hæfisskilyrði sem sett voru í auglýsingunni.