Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir harla ólíklegt að flokkur hennar og Sjálfstæðisflokkurinn séu að fara í stjórnarmyndunarviðræður. Það sé ólíklegt að Sjálfstæðisflokkurinn muni gefa eftir varðandi skattlagningu á efnaðasta fólkið í landinu. Mjög sjaldgæft sé að svo ólíkir flokkar eins og Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur geti unnið saman. Þetta kemur fram í viðtali við Katrínu í Fréttatímanum í dag.
Þar segist hún ekki vita hvað taki við í stjórnarmyndun nú. „Það kemur margt til greina, minnihlutastjórn, jafnvel þjóðstjórn og ég útiloka alls ekki að við þurfum að kjósa fyrr. Það eru átakatímar og þetta er mikil prófraun fyrir þingræðið.“
Guðni Th. Jóhannesson sé að reka á eftir stjórnmálaleiðtogunum enda sé það hans hlutverk. „En ég held að við ættum ekki að missa kúlið þótt einhverjir gamlir skarfar séu að halda því fram að þetta hafi vanalega tekið einn sólarhring þegar þeir voru og hétu. Það eru mörg lönd í Evrópu sem hafa gengið í gegnum langar og erfiðar stjórnarkreppur en að lokum hafa hlutirnir blessast. Við erum ekki komin hálfa leiðina þangað þótt við tökum okkur aðeins lengri tíma í að hugsa næstu leiki.“
Katrín segir að það sé einkennilegt að enn séu að störfum þrír ráðherrar sem séu dottnir út af Alþingi svona löngu eftir að kosningum lauk, en kosið var 29. október. Nauðsynlegt er að það sjáist til lands varðandi stjórnarmyndun um áramót, að minnsta kosti áður en Sigurður Ingi Jóhannsson flytur áramótaávarp forsætisráðherra.
Ný könnun á fylgi flokkanna, sem fréttastofa 365 birtir í dag, sýnir litlar breytingar á fylgi flokkanna frá því í kosningunum í október. Fjöldi þingmanna hvers flokks myndi breytast aðeins, t.d. myndi Sjálfstæðisflokkurinn fá 23 en Framsóknarflokkurinn sex. Staða síðustu ríkisstjórnarflokka við stjórnarmyndun yrði því enn sú sama. Sömu sögu er að segja af þeim fimm flokkum sem reyndu að mynda ríkisstjórn frá miðju til vinstri. Flokkarnir sem hefðu myndað hana væru enn með 34 þingmenn ef kosið yrði í dag. Eina stjórnarmynstrið sem hefur verið reynt sem myndi bæta við sig þingmönnum er samstarf Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Það myndi hafa 35 þingmenn en hefur 32 nú. Sú styrking er tilkomið vegna þess að Björt framtíð og Sjálfstæðisflokkur myndu bæta við sig fjórum þingmönnum en Viðreisn myndi tapa einum.