Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson og tónlistarkonan Sóley Stefánsdóttir fengu hæstu styrkina úr hljóðritasjóði, sem nú eru veittir í fyrsta sinn. Tilkynnt var um styrkina í byrjun desember en alls voru veittir 84 styrkir. Þorvaldur Bjarni fékk eina milljón króna vegna verkefnis sem kallast Völuspá og Sóley fékk sömu upphæð vegna útgáfu þriðju sólóplötu sinnar. Heildarupphæð styrkja var 33,5 milljónir króna.
Aðrir sem fengu háa styrki voru Bubbi Morthens (750 þúsund krónur vegna tveggja platna), Védís Hervör Árnadóttir (750 þúsund krónur vegna White Picket Fence) og Sigurður Geirdal Ragnarsson 750 þúsund krónur vegna plötunnar DIMMA-5). Aðrir hlutu lægri styrki.
Í frétt á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins vegna styrkjaúthlutanna segir að kynjahlutfall forsvarsmanna umsækjenda og svo þeirra sem hlutu á endanum styrk hafi verið það sama. 61 prósent umsækjenda voru karlar, 31 prósent konur og átta prósent blandaðir hópar.
Styrkir eftir tónlistarstílum skiptust á eftirfarandi hátt:
Umsóknir fyrir rokk, þungt og indie rokk voru 24 talsins eða um 14% umsókna, af þeim hlutu átta styrk, samtals að upphæð 3,3 millj. kr.
Umsóknir fyrir popp, indie popp, dægurtónlist, raftónlist, þjóðlagatónlist, barnatónlist, hip-hop ofl. voru 78 talsins eða tæplega helmingur umsókna. Af þeim hlutu 45 styrk að fjárhæð ríflega 18 millj. kr.
Undir nútímatónlist, samtímatónlist, kóratónlist, sönglög ofl. mætti flokka 31 umsókn eða 18% umsókna. Af þeim hlutu 18 styrki, samtals að fjárhæð um 6 millj. kr.
Jazztónlist af ýmsum toga átti við um 19 umsóknir en af þeim hlutu 12 styrk að fjárhæð 5,5 millj. kr.
Þrjár umsóknir bárust þar sem viðfangsefnið var illskilgreinanlegt og hlaut ein þeirra 200.000 kr. styrk.
Stofnaður í vor
Hljóðritasjóður var settur á stofn af mennta- og menningarmálaráðuneytinu 1. apríl síðastliðinn. Tilgangur sjóðsins er að stuðla að nýsköpun í íslenskri tónlist og að efla hljóðritagerð. Hann fékk 33,5 milljónum króna til að ráðstafa á þessu ári. Alls bárust sjóðnum 167 styrkjaumsóknir og sótt var um ríflega 165 milljónir króna.
Þrír aðalmenn og þrír varamenn voru skipaðir í stjórn sjóðsins til þriggja ára í sumar.
Stjórn Hljóðritasjóðs er þannig skipuð:
- Atli Örvarsson, formaður, skipaður án tilnefningar,
- Eiður Arnarsson, varaformaður, tilnefndur af Samtóni,
- Margrét Kristín Sigurðardóttir, tilnefnd af Samtóni.
Varamenn eru:
- Ragnhildur Gísladóttir, skipuð án tilnefningar,
- Jóhann Ágúst Jóhannsson, tilnefndur af Samtóni,
- Kjartan Ólafsson, tilnefndur af Samtóni.