Algengt bensínverð á Íslandi hefur hækkað um þrjár krónur síðan í nóvember og er nú 190,30 krónur á hvern lítra. Í nóvember var algengt bensínverð 187,30 krónur á hvern lítra. Samkvæmt sundurliðun Kjarnans á eldsneytisverði þá virðast hækkunin milli mánaða aðallega vera á hlut olíufélaganna. Gert er ráð fyrir hækkun krónugjalda á bensín í fjárlagafrumvarpinu sem nú er til umræðu fyrir Alþingi.
Bensínverð á Íslandi skiptist í þrjá meginliði. Það er algengt innkaupaverð, opinber gjöld sem ríkið leggur á eldsneytisverð og hlutur olíufélaga. Opinberu gjöldin breytast lítið á milli mánaða; það er raunar aðeins virðisaukaskatturinn sem getur breyst nema með sérstökum lagabreytingum frá Alþingi. Virðisaukaskatturinn er hlutfallslegur skattur á eldsneytisverð en önnur opinber gjöld sem leggjast á lítraverðið eru föst krónutala sem ákvörðuð er í fjárlögum. Krónugjöldin á bensínverð eru almenn vörugjöld, sérstök vörugjöld og kolefnisgjald.
Algengt innkaupaverð getur vitanlega sveiflast á milli mánaða. Í bensínvakt Kjarnans er innkaupaverðið reiknað út frá verði á bensíni til afhendingar í New York-höfn í upphafi mánaðar frá bandarískum yfirvöldum og miðgengi dollars gagnvart íslenskri krónu í yfirstandandi mánuði. Nánar má lesa um forsendur bensínvaktarinnar hér.
Á árinu 2016 náði bensínverðið hámarki í júní þegar algengt verð á bensínlítra var 204,40 krónur. Lægst var verðið í febrúar þegar lítrinn kostnaði að víðast hvar 186,50 krónur.
Verðið hækkar líklega á næsta ári
Tveir þættir gætu haft ráðandi áhrif á eldsneytisverð á næsta ári. Um mánaðamótin tóku samtök olíuframleiðsluríkja, OPEC-ríkin svokölluðu, ákvörðun um að takmarka olíuframleiðslu sína á næstunni til þess að hækka heimsmarkaðsverð á olíu. Þessi ákvörðun hefur þegar haft áhrif á heimsmarkaðsverðið; nú kostar fatið af hráolíu nærri 52 dollara en um mánaðamótin var verðið um 45 dollarar.
Heimsmarkaðsverð á olíu ræðst hins vegar af fjölmörgum flóknum þáttum og þess vegna er erfitt að gera langtímaverðspár. Sem dæmi um hugsanlegt mótvægi við ákvörðun OPEC-ríkjanna er aukin olíuframleiðsla Bandaríkjanna. Ef framboðið helst jafn mikið eða jafnvel meira en það hefur verið mun verðið hugsanlega ekki hækka jafn ört og nú er gert ráð fyrir.
Eftir stendur hins vegar sú staðreynd að undanfarið ár hefur heimsmarkaðsverð á hráolíu hækkað um um það bil 19 prósent.
Fylgstu með bensínverðinu á Bensínvakt Kjarnans |
Kannaðu verðið |
Gert er ráð fyrir 2,5 prósent hækkun á almenn og sérstök vörugjöld á bensín og kolefnisgjald umfram 2,2 prósent verðlagsuppfærslu í fjárlagafrumvarpinu sem nú er til umræðu á Alþingi. Þess vegna munu krónutölugjöldin svokölluðu hækka um áramótin um 4,7 prósent ef frumvarpið fer óbreytt í gegnum þingið. Allir þessir þrír liðir hafa töluverð áhrif á eldsneytisverð hér á landi. Hægt er að sjá sundurliðun eldsneytisverðsins á vefnum gogn.kjarninn.is. Auk þessara þriggja gjalda þá teljast áfengisgjald, tóbaksgjald, bifreiðagjald og kílómetragjald einnig til krónutölugjalda.
Almennt bensíngjald er föst krónutala sem leggst á hvern bensínlítra og rennur í ríkissjóð. Í dag nemur þetta gjald 25,6 krónum á hvern lítra. Sömu sögu er að segja um sérstakt vörugjald á bensínlítrann. 41,3 krónur leggjast á lítraverð á bensíni í dag. Munurinn á þessum tveimur gjöldum – almennum og sérstökum vörugjöldum á bensín – er að almenna gjaldið rennur óskipt í ríkissjóð en sérstaka gjaldið rennur óskipt til Vegagerðarinnar, að frádregnu innheimtugjaldi ríkissjóðs.
Kolefnisgjald á hvern bensínlítra er einnig ákvarðað með lögum. Það mun hækka að sama skapi um 2,5 prósent umfram verðlagsuppfærslu ef fjárlagafrumvarpið fer óbreytt í gegnum þingið. Í dag er gjaldið föst krónutala að upphæð 5,25 krónur sem leggjast á hvern seldan lítra af bensíni.
Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að eldsneytisgjöldin muni skila samanlagt 26,9 milljörðum króna í ríkissjóð á næsta ári. Þar er einnig gert ráð fyrir aukningu í sölu eldsneytis um þrjú prósent. Á sama og fólk muni aka meira á næsta ári þá fer floti sparneytnari bíla stækkandi sem vegur upp á móti aukningu í eldsneytissölu.
Samtök iðnaðarins (SI) hafa gagnrýnt þennan lið fjárlagafrumvarpsins og segja þessa hækkun á eldsneytisgjöldum munu fara „beint út í verðlag“. „Reikna má með að vísitala neysluverðs hækki um 0,2 prósent bara vegna þessarar hækkunar og eykur þannig verðbólgu sem því nemur og dregur úr kaupmætti,“ er haft eftir Almari Guðmundssyni, framkvæmdastjóra SI, í fréttatilkynningu samtakanna sem barst fjölmiðlum á fimmtudag. Hann bendir einnig á að hér sé um að ræða viðbótarskattahækkun á „vörur sem þegar bera mjög háa skatta“.
Ástæða þess að gert er ráð fyrir umframhækkun krónutölugjalda í nýjum fjárlögum er til þess að „slá á þau þensluáhrif sem látið hafa á sér kræla undanfarna mánuði“, svo vitnað sé beint í ræðu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á Alþingi þegar hann mælti fyrir frumvarpinu 8. desember síðastliðinn. „Gert er ráð fyrir að þessi hækkun skili ríkissjóði samanlagt 3,2 milljörðum króna á ári að meðtöldum hliðaráhrifum á virðisaukaskatt.“