Prestafélag Íslands vill ekki að prestar, prófastar og biskupar verði færðir undan ákvörðunum kjararáðs, líkt og lagt er til í frumvarpi sem formenn allra stjórnmálaflokka hafa lagt fram á Alþingi. Þetta kemur fram í umsögn Prestafélagsins til efnahags- og viðskiptanefndar.
Samkvæmt frumvarpinu til breytinga á lögum um kjararáð eru fjölmargar stéttir, sem nú heyra undir ráðið, færðar undan því. Ef frumvarpið verður að lögum mun verkefni kjararáðs verða að ákveða laun og starfskjör þjóðkjörinna manna, dómara, saksóknara, ráðherra, ráðuneytisstjóra og þeirra skrifstofustjóra sem heyra undir ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins og fara með fyrirsvar fyrir hönd ráðherra við gerð kjarasamninga. Þá mun kjararáð áfram ákvarða laun forsetaritara, seðlabankastjóra, aðstoðarseðlabankastjóra og ríkissáttasemjara.
Til bráðabirgða verða hins vegar laun og starfskjör biskups, vígslubiskupa, prófasta og presta þjóðkirkjunnar áfram ákvörðuð af kjararáði, „þar til samkomulag hefur náðst við þjóðkirkjuna um nýtt launafyrirkomulag.“
Prestar eru ósáttir við þetta og vilja að þeirra kjör verði áfram ákvörðuð af kjararáði. Þeir segja að forsendurnar sem gefnar séu fyrir bráðabirgðaákvæðinu séu ekki fyrir hendi. „Það er mjög mikilvægt, ekki síst vegna hagsmuna Ríkissjóðs, að launaákvarðanir vegna presta, prófasta og biskupa verði teknar af óvilhöllum aðila í ljósi kirkjujarðasamkomulagsins frá 1997 og lögum samkvæmt. Ekki er neitt sem bendir til þess að breyting verði gerð á þeim ákvæðum og því samkomulagi á næstu misserum,“ segir meðal annars í umsögn presta. Ef breyting verði gerð á samkomulagi ríkisins og þjóðkirkjunnar um þessi mál verði hægur vandi að færa ákvarðanir um laun presta frá kjararáði.