Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, segir flokk sinn algerlega trúverðugan samstarfsflokk í nýrri ríkisstjórn eins og hann sé í dag. Hann segir engan klofning vera í flokknum og fullyrðir að stjórnarmyndunarviðræður hefðu gengið betur ef Framsóknarflokkurinn hefði tekið þátt í þeim. Þetta kom fram í viðtali við Sigurð Inga í þættinum Sprengisandi á Bylgunni í morgun.
Eini flokkurinn sem hefur sýnt mikinn vilja til að mynda ríkisstjórn með Framsóknarflokknum eftir kosningarnar 29. október er Sjálfstæðisflokkurinn. Ríkisstjórn flokkanna tveggja féll hins vegar í kosningunum og þurfa þeir að minnsta kosti einn flokk til viðbótar til að geta haldið ríkisstjórnarsamstarfi sínu áfram í meirihluta. Viðmælendur Kjarnans í öðrum flokkum hafa allir útilokað að þeir myndu koma inn í núverandi stjórnarsamstarf. Til greina kæmi að starfa með annað hvort Sjálfstæðisflokki eða Framsóknarflokki í ríkisstjórn undir vissum kringumstæðum og ef saman næðist um málefni, en engin möguleiki væri á því að fara í samstarf með þeim báðum. Ástæðurnar eru m.a. þær að kosið var vegna spillingarmála sem tengdust síðustu ríkisstjórn og enginn vilji er til að framlengja líftíma hennar.
Meiri linkind eru þó gagnvart samstarfi við Sjálfstæðisflokk en Framsóknarflokki. Það sést á því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur þegar tekið þátt í nokkrum óformlegum og formlegum stjórnarmyndunarviðræðum, annars vegar með Bjartri framtíð og Viðreisn og hins vegar með Vinstri grænum, en Framsókn hefur enn ekki verið boðið að taka þátt í neinu slíku samtali. Ein helsta ástæðan er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður flokksins og oddviti í Norðausturkjördæmi. Hann þykir óútreiknanlegur, ekkert traust er til hans hjá þingmönnum annarra stjórnmálaflokka en Sjálfstæðisflokks og sífellt herskárri yfirlýsingar hans um samsæri gegn sér í Wintris-málinu og árásir fjölmiðla þykja ekki trúverðugar.
Mikið frost hefur verið milli Sigmundar Davíðs og Sigurðar Inga frá því að sá síðarnefndi bauð sig fram gegn honum sem formaður Framsóknarflokksins og vann í byrjun október síðastliðinn.
Viðvarandi verkefni að bæta samskiptin
Sigurður Ingi var í viðtali á RÚVá föstudagsmorgun og viðurkenndi þar að það bæti verið betra á milli hans og Sigmundar Davíðs. Það væri því miður staðreynd. Forsætisráðherra sagði það vera viðvarandi verkefni að bæta samskipti við Sigmund Davíð innan þingflokks Framsóknarflokksins og sagðist vona að Sigmundur Davíð fari brátt að taka þátt í þingstörfum, sem hann hefur ekki gert til þessa á nýju kjörtímabili.
Sama dag var Sigmundur Davíð spurður út í stöðuna innan Framsóknarflokksins í margumtöluðu viðtali við RÚV. Þar svaraði hann flestum spurningum um samstarfsörðugleika innan flokksins með því að segja að RÚV bæri mesta ábyrgð á þeim flokksátökum sem ættu sér stað.
Sigurður Ingi sagði á Sprengisandi í morgun að hann hefði ekki stórar áhyggjur af samskiptum við Sigmund Davíð. „Ég hef ekki stórar áhyggjur af því. Ég held að það geti annars vegar lagast með einhverjum hætti. Það að Framsóknarflokkurinn standi ekki traustum fótum fyrir það sem hann stendur fyrir og þingflokkurinn bakki það ekki upp hef ég engar áhyggjur“.