Fylgi Samfylkingarinnar í Reykjavík mælist rúmlega 17 prósent í nýrri skoðanakönnun. Flokkurinn fékk 31,9 prósent í sveitastjórnarkosningunum 2014 og leiðir meirihlutastjórn í borginni sem stendur undir forystu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Borgarfulltrúum verður fjölgað úr 15 í 23 næst þegar kosið verður. Þetta er niðurstaða nýrrar skoðanakönnunar sem fréttastofa Fréttablaðsins og Stöðvar 2 lét gera. Samfylkingin myndi samt sem áður tapa einum borgarfulltrúa ef kosið yrði í dag, er með fimm en fengi fjóra. Samfylkingin hefur beðið afhroð í síðustu tveimur þingkosningum, fékk 12,9 prósent árið 2013 og einungis 5,7 prósent í lok október síðastliðins. Því er staða flokksins í Reykjavík enn mun sterkari en í þjóðmálunum þrátt fyrir að fylgið mælist mun lægra en í síðustu kosningum.
Meirihluti Samfylkingar, Pírata, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna myndi halda velli ef kosið yrði í dag. Hann fengi 14 borgarfulltrúa en minnihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar níu talsins. Í dag er meirihlutinn með níu borgarfulltrúa en minnihlutinn með sex.
Sjálfstæðisflokkurinn yrði stærsti flokkurinn í borginni og myndi bæta við sig fylgi. Hann fékk 25,7 prósent 2014 en mælist nú með 32 prósent. Vinstri græn mælast með 15,4 prósent fylgi, Píratar með 14,6 prósent og Björt framtíð með 13 prósent fylgi. Saman myndu þessir þrír flokkar fá tíu borgarfulltrúa. Framsóknarflokkurinn mælist minnstur allra þeirra flokka sem í dag eiga fulltrúa í borgarstjórn. Fylgi flokksins mælist fjögur prósent og hann myndi rétt ná inn manni ef kosið yrði í dag.
Könnun fréttastofu Fréttablaðsins og Stöðvar 2 var gerð dagana 12.-14. desember. Hringt var í 1.016 einstaklinga. 617 svöruðu og tóku tæp 60 prósent afstöðu til spurningar um hvaða flokkur í borginni yrði fyrir valinu.