Stjórnir Kviku banka og Virðingar hafa undirritað samkomulag um helstu skilmála fyrirhugaðs samruna félaganna með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakannana, samþykki hluthafafunda og eftirlitsaðila. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar. Þar segir einnig að í byrjun næsta árs muni hefjast vinna við áreiðanleikakannanir og viðræður um nánari útfærslu á sameiningu félaganna. Niðurstöður þeirrar vinnu verða lagðar fyrir hluthafa Kviku og Virðingar til endanlegs samþykkis.
Stjórnir Virðingar hf. og Kviku banka undirrituðu viljayfirlýsingu um að undirbúa samruna félaganna tveggja undir nafni Kviku í lok nóvember síðastliðins. Í aðdraganda sameiningar verður eigið fé Kviku lækkað um 600 milljónir króna og lækkunin greidd til hluthafa bankans. Hluthafar Kviku munu eftir samruna eiga 70 prósent hlut í sameinuðu félagi og hluthafar Virðingar 30 prósent hlut.
DV greindi frá því í október að Virðing væri að reyna að eignast stóran hlut í Kviku. Hannes Frímann Hrólfsson, forstjóri Virðingar, og Ármann Þorvaldsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar og einn hluthafa félagsins, hefðu vikurnar á undan fundað með nokkrum af stærri hluthöfum Kviku og lýst yfir áhuga á að kaupa hlut þeirra í bankanum. Þá kom fram að það gæti skýrst á næstu vikum hvort af samrunanum yrði. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem félögin tvö reyna samruna. Um haustið 2014 áttu sér stað formlegar viðræður milli Virðingar og MP banka, sem síðar breytti nafni sínu í Kviku, um sameiningu sem runnu út í sandinn.
Í tilkynningunni vegna undirritunar viljayfirlýsingar um samruna sagði: „Með sameiningu Kviku og Virðingar yrði til öflugt fjármálafyrirtæki sem væri leiðandi á fjárfestingabankamarkaði. Sameinað félag yrði einn stærsti aðili í eignastýringu á Íslandi með um 220 milljarða króna í stýringu og fjölda sjóða í rekstri s.s. verðbréfasjóði, fjárfestingasjóði, framtakssjóði, fasteignasjóði, veðskuldabréfasjóði og ýmsa fagfjárfestasjóði. Auk þess myndi sameinað félag ráða yfir öflugum markaðsviðskiptum, fyrirtækjaráðgjöf, sérhæfðri lánastarfsemi og einkabankaþjónustu.
Á næstu vikum verður unnið að samkomulagi um helstu skilmála fyrir samrunanum, þ.m.t. um forsendur, gerð áreiðanleikakannana, endanlega samningsgerð og aðgerðar- og tímaáætlun. Ef sameining félaganna nær fram að ganga er stefnt að því að hún taki gildi um mitt næsta ár.“ Nú liggur samkomulagið um helstu skilmála samkomulagsins fyrir.
Bókfært eigið fé Kviku nam tæplega 6,2 milljörðum króna í lok september á þessu ári. Stærstu hluthafar bankans eru Lífeyrissjóður verslunarmanna, félagið Varða Capital ehf. ( í eigu Gríms A. Garðarssonar, Edward Schmidt og Jónasar H. Guðmundssonar), félagið Sigla ehf. (í eigu Tómasar Kristjánssonar, Finns Reys Stefánssonar og Steinunnar Jónsdóttur) og Títan B ehf. (félags í eigu Skúla Mogensen).
Virðing sameinaðist Auði Capital í byrjun árs 2014. Hluthafar Virðingar eru félag í eigu Kristínar Pétursdóttur, Lífeyrissjóður Verslunarmanna, Sameinaði lífeyrissjóðurinn, félag í eigu Guðbjargar Eddu Eggertsdóttur, Stafir lífeyrissjóðir, félag í eigu Ármanns Þorvaldssonar og meðfjárfesta, félag í eigu Vilhjálms Þorsteinssonar og félag í eigu Kristína Jóhannesdóttur og Ásu Karenar Ásgeirsdóttur.