Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar hefur ákveðið að taka ekki tillit til óska presta um að heyra áfram undir kjararáð til frambúðar. Þetta kemur fram í áliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um breytingar á lögum um kjararáð sem þingmenn allra flokka sem sæti eiga á þingi nema Pírata skrifa undir. Lögin hafa nú verið afgreidd úr nefndinni til annarrar umræðu, sem fer fram síðar í dag.
Samkvæmt frumvarpinu munu kjör biskups, vígslubiskups, prófasta og presta þjóðkirkjunnar ráðast af samningum innan kirkjunnar í framtíðinni en þar til að samkomulag hefur náðst við þjóðkirkjuna um nýtt launafyrirkomulag mun nýtt ákvæði til bráðabirgða vera í lögum tryggja að launa þeirra verða áfram ákvörðuð af kjararáði.
Kjarninn greindi frá því 16. desember að Prestafélag Íslands hafi skilað umsögn til nefndarinnar þar sem fram kom að prestar, prófastar og biskupar vildu ekki verða færðir undan ákvörðunum kjararáðs. Þar kom fram að þeir telji forsendurnar sem gefnar séu fyrir bráðabirgðaákvæðinu séu ekki fyrir hendi. „Það er mjög mikilvægt, ekki síst vegna hagsmuna Ríkissjóðs, að launaákvarðanir vegna presta, prófasta og biskupa verði teknar af óvilhöllum aðila í ljósi kirkjujarðasamkomulagsins frá 1997 og lögum samkvæmt. Ekki er neitt sem bendir til þess að breyting verði gerð á þeim ákvæðum og því samkomulagi á næstu misserum,“ segir meðal annars í umsögn presta. Ef breyting verði gerð á samkomulagi ríkisins og þjóðkirkjunnar um þessi mál verði hægur vandi að færa ákvarðanir um laun presta frá kjararáði.
Nefndin tók ekki tillit til þessarra athugasemda og leggur öll til að bráðabirgðaákvæðið haldi sér.
Sendiherrar áfram undir kjararáði
Samkvæmt frumvarpinu til breytinga á lögum um kjararáð eru fjölmargar stéttir, sem nú heyra undir ráðið, færðar undan því. Ef frumvarpið verður að lögum mun verkefni kjararáðs verða að ákveða laun og starfskjör þjóðkjörinna manna, dómara, saksóknara, ráðherra, ráðuneytisstjóra og þeirra skrifstofustjóra sem heyra undir ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins og fara með fyrirsvar fyrir hönd ráðherra við gerð kjarasamninga. Þá mun kjararáð áfram ákvarða laun forsetaritara, seðlabankastjóra, aðstoðarseðlabankastjóra og ríkissáttasemjara.
Nefndin leggur til lítilsháttar breytingar á frumvarpinu milli umræðna. Á meðal þeirra breytinga eru þær að sendiherrum og formönnum sjálfstæðra úrskurðanefnda er bætt við þann hóp sem lagt er til að kjararáð ákveði laun fyrir áfram. Hægt er að lesa álitið í heild sinni hér.