Þjóðmálaþátturinn Silfrið mun hefja göngu sína á RÚV eftir áramót. Vísir greindi fyrst frá þessu. Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri sjónvarps, segir að Silfrið verði umræðuþáttur um þjóðmálin efn stefnt er að því að fyrsti þátturinn fari í loftið um mánaðamótin janúar og febrúar.
Þátturinn verður á dagskrá á sunnudögum, líkt og forveri hans, Silfur Egils, sem var á dagskrá RÚV á sunnudögum fram til ársins 2013.
Vísir hefur fyrir því heimildir að Fanney Birna Jónsdóttir, fyrrverandi aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, og Egill Helgason, sjónvarpsmaður á RÚV og fyrrverandi stjórnandi Silfurs Egils, verði stjórnendur.
Skarphéðinn staðfestir ekkert um það og segir ekki frágengið hverjir verða umsjónarmenn þáttarins.