„Af öllum þjóðarleiðtogunum sem urðu sér til skammar vegna falins auðs á aflandseyjum, þá var enginn jafn óheppinn og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Örvæntingafull tilraun hins óheppna forsætisráðherra Íslands við að útskýra undirskrift sína á skjölum Wintris Inc., félags á Bresku Jómfrúareyjunum sem hélt á hlut í einum af föllnu bönkum þjóðarinnar, var fest á filmu.“ Svona hefst umfjöllun á vef breska blaðsins The Guardian um Panamaskjölin og afleiðingarnar sem birting þeirra hafði. Málið er tekið fyrir sem eitt af stærstu fréttamálum ársins að mati ritstjórnar blaðsins.
Þar segir einnig að næstum tíundi hver Íslendingur hafi í kjölfarið mótmælt fyrir framan Alþingi og sýnt reiði sína með því að kasta jógúrti og veifa bönunum. Þar er verið að vísa til þess að um 26 þúsund manns tóku þátt í mótmælum mánudaginn 4. apríl, þar sem afsagnar Sigmundar Davíð og ríkisstjórnar hans var krafist. Sigmundur Davíð sagði af sér embætti forsætisráðherra þriðjudaginn 5. apríl, tveimur dögum eftir að ofangreint viðtal var sýnt í sérstökum Kastljósþætti.
Neðar í umfjöllun The Guardian er m.a. fjallað um veru David Cameron, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, í skjölunum. Í þeim kom fram að faðir hans hafi átt sjóð sem skráður var á aflandseyju. Blaðið segir að í pólitískum endurminningum Cameron – sem sagði af sér embætti síðar á árinu 2016 eftir að Bretar samþykktu að yfirgefa Evrópusambandið – hafi Craig Oliver, fjölmiðlaráðgjafi Cameron, opinberað að hann hefði verið áhyggjufullur um að Cameron myndi þurfa að segja af sér vegna aflandsfélagahneykslisins.