Hlutdeild prentmiðla á íslenskum auglýsingamarkaði var 32,3 prósent í fyrra, samkvæmt nýbirtri ársskýrslu fjölmiðlanefndar. Upplýsingarnar koma frá fimm stærstu birtingahúsum landsins, og ellefu fjölmiðlum. Fjölmiðlanefnd telur að upplýsingarnar eigi við um helming auglýsinga sem seldar voru á íslenskum fjölmiðlamarkaði í fyrra, og geti gefið mikilvægar upplýsingar um það hvernig fjölmiðlamarkaðurinn er að þróast hér á landi.
Sjónvarp var með 30 prósenta hlutdeild á auglýsingamarkaði, útvarp 16,8 prósent og vefmiðlar innanlands 15,2 prósent. Á heildina litið jókst birtingafé birtingahúsanna fimm sem tóku þátt um 4,8 prósent milli ára.
Hlutur prentmiðla fer minnkandi miðað við þessar upplýsingar, þar sem hann var 37 prósent árið 2014. Það ár tók fjölmiðlanefnd saman í fyrsta sinn upplýsingar um skiptingu birtingafjár á Íslandi milli miðla. Sjónvarp var þá með 29,1 prósent og útvarp 15,8 prósent. Báðir miðlar bæta því aðeins við sig. Innlendir vefmiðlar virðast líka sækja aðeins í sig veðrið, fara úr 12,4 prósentum árið 2014 í 15,2 prósent árið 2015.
Rúmlega þrjú prósent af birtingafé fór til erlendra vefmiðla, rétt eins og árið 2014. Þegar auglýsingar á vefnum voru skoðaðar sérstaklega voru niðurstöðurnar þær að um 20,4 prósent af birtingafé á netinu fór í erlenda vefmiðla á móti 79,6% hlut innlendra vefmiðla.
2,6 prósent fóru í aðrar auglýsingar, eins og bíó, flettiskilti og annað. Fjölmiðlanefnd segir að niðurstöðurnar úr könnuninni verði að skoðast með þeim fyrirvara að stærsti fjölmiðillinn sem afhenti upplýsingar um skiptingu birtingafjár er á sjónvarpsmarkaði.
Lítill en merkjanlegur samdráttur
Prent- og sjónvarpsmiðlar eru ennþá stærstu miðlarnir í auglýsingum, þrátt fyrir lítinn en merkjanlegan samdrátt, eins og fjölmiðlanefnd orðar það. Vefmiðlar sækja í sig veðrið á kostnað prentmiðla, en það er þróun sem að sumu leyti hefur sést annars staðar. Engu að síður er staða íslenskra prentmiðla og sjónvarps miklu sterkari en staða slíkra miðla í nágrannaríkjunum.