Flestir landsmenn bera mikið traust til fréttamiðla RÚV. Alls segjast 69 prósent þeirra treysta fréttastofu RÚV og 67 prósent vef hennar, rúv.is. Fæstir vantreysta einnig RÚV, en 13 prósent segjast vantreysta fréttastofunni og 14 prósent RÚV.is. Kjarninn er sá íslenski miðill sem íslenskir fjölmiðlanotendur vantreysta minnst utan fréttamiðla RÚV. 21 prósent aðspurðra sögðust bera frekar eða mjög lítið traust til Kjarnans. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR um traust til fjölmiðla.
Traust til Kjarnans eykst frá því að könnunin var síðast gerð, í desember 2014. Nú treysta 31 prósent Kjarnanum en 27 prósent gerðu það árið 2014. Kjarninn situr í sjöunda sæti yfir þá miðla sem njóta mest trausts á Íslandi og er sá eini af efstu átta miðlum landsins sem bætir við sig trausti frá 2014. Fréttamiðlar RÚV, fréttastofa Stöðvar 2, mbl.is, Morgunblaðið, Vísir.is og Fréttablaðið tapa öll trausti frá síðustu mælingu. Fréttatíminn bætir töluverðu trausti við sig milli mælinga. Hann mældist með 18 prósent traust 2014 en er nú með 25 prósent.
Vantraust eykst gagnvart öllum fjölmiðlum landsins. Eina undantekningin er Stundin, en traust og vantraust til þess miðils er nú mælt í fyrsta sinn. Alls sögðust 26 prósent treysta Stundinni en 29 prósent segjast vantreysta henni. Mest er vantraustið gagnvart miðlum þeirra miðla sem heyra undir Pressuna og DV, en þeim er stýrt af Birni Inga Hrafnssyni, útgefanda Vefpressunnar. Alls segjast 66 prósent aðspurðra, eða tveir af hverjum þremur, vantreysta DV og DV.is og 48 prósent vantreysta Pressunni. Þessir þrír miðlar er líka þeir sem fæstir treysta. Alls segjast ellefu prósent treysta Pressunni, átta prósent DV.is og sjö prósent DV. Traust á Pressuna eykst frá síðustu könnun en dregst verulega saman á miðla DV.