Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, segir að hann sé sannfærður um að flokkur sinn eigi að leiða næstu ríkisstjórn. Fylgi flokksins beri höfuð og herðar yfir aðra flokka. Þetta kom fram í viðtal hans við Björn Bjarnason á sjónvarpstöðinni ÍNN sem sýnt var í kvöld.
Bjarni hefur verið í viðræðum við forsvarsmenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar um myndun nýrrar ríkisstjórnar undanfarna daga. Í gær lögðu formenn tveggja síðarnefndu flokkanna, Benedikt Jóhannesson og Óttarr Proppé, fram málefnatillögur fyrir Bjarna en ásteytingarsteinarnir eru þeir sömu og voru í hin tvö skiptin sem flokkarnir þrír reyndu að mynda ríkisstjórn: sjávarútvegs- og Evrópumál. Viðmælendur Kjarnans sem koma að viðræðunum telja þó allir meiri líkur en minni á að saman náist í þetta skiptið. Slík ríkisstjórn væri með 32 þingmenn á bak við sig, eða minnsta mögulega meirihluta.
Sjálfstæðismenn hafa ítrekað reynt að fá Viðreisn og Bjarta framtíð til að opna á að taka Framsóknarflokkinn með í ríkisstjórn til að styrkja hana. Báðir flokkarnir hafa aftekið það með öllu opinberlega oftar en einu sinni. Bjarni ræddi þann möguleika í viðtalinu við Björn í kvöld og sagðist hafa átt gott samstarf við Framsóknarflokkinn. „Mér finnst að menn hafi verið að reisa allskonar veggi og girðingar. Margir hafa sagt við störfum ekki með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum saman, við erum til í að starfa með hvorum sem er, sem er einhver svona hugdetta bara fyrir mér, þá líður mönnum eins og þeir séu að ganga inn í ríkisstjórnina en það er allt bara í kollinum á fólki eins og ég sé það. Að sjálfsögðu væri það ný ríkisstjórn, með nýjan stjórnarsáttmála, með nýtt upphaf, að hluta til með nýju fólki.“