Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, vill að Ríkisútvarpið biðji hann afsökunar og konu hans afsökunar á þeirri meðferð sem þau hafi hlotið af hálfu RÚV á árinu 2016. Hann spyr Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóra að þessu í opnu bréfi sem hann birtir í Morgunblaðinu í morgun.
Sigmundur Davíð fer þar í mjög löngu máli yfir samskipti sín við RÚV og segir m.a. að það hafi ekki farið framhjá neinum sem með málum hafi fylgst að „frá því að ég hóf þátttöku í stjórnmálum fyrir átta árum síðan hefur hópur starfsmanna og verktaka í Efstaleiti 1 haft eitt og annað við mig og Framsóknarflokkinn að athuga umfram flesta (alla) aðra stjórnmálamenn og -flokka.“ Hann segir um hóp að ræða sem hafi miklar skoðanir á samfélagsmálum en ekki mikla samúð með hans málstað, og kallar hópinn SDG-RÚV hópinn.
Sigmundur nefnir engin nöfn og talar svo aðeins um RÚV í grein sinni, en ekki þennan ótilgreinda hóp. Hann heldur því meðal annars fram að fréttamaður á RÚV hafi kallað hann skíthæl þegar Icesave niðurstaðan hafi verið ljós og að hann hafi verið skammaður og gagnrýndur af fréttamönnum þar í gegnum tíðina, m.a. í Icesave og fyrir kosningarnar 2013. „Við þau bætast meðal annars ótal pistlar fastráðinna starfsmanna og verktaka, umfjöllun í umræðu- þáttum og jafnvel barnaefni. Í viðtalsþáttum í útvarpi og sjónvarpi hef ég svo fengið sérstakar trakteringar, jafnvel frá þeim sem að öllu jöfnu gera út á að vera „laufléttir“ og lausir við pólitík.“
Hann segir það ríkjandi viðhorf á RÚV að játa aldrei mistök, og fer í löngu máli yfir viðhorf sitt gagnvart umfjöllun RÚV um Panamaskjölin. „Framganga Ríkisútvarpsins var öll með mestu ólíkindum og á engan hátt skyld því sem mér var á sínum tímum kennt að væru grundvallarreglur fréttamennsku,“ skrifar hann meðal annars. Hann fjallar um umfjöllun erlendra fjölmiðla um Panamaskjölin og mál hans, en segir að RÚV og samverkamenn þess hafi ekki verið að fylgja fordæmi erlendra miðla „heldur að mata þá til að reyna að beita þeim fyrir sig í íslenskri pólitík.“
„Eftir því sem frá leið þurfti enginn
að efast um hvert væri megin
skotmarkið. Þegar ég hafði stigið til
hliðar hvarf skyndilega allur áhugi á
Panama-skjölum og því hvaða nöfn
hefðu birst þar og hvers vegna. Við
tóku áhyggjur nokkurra
RÚV-aktívista af því að ég kynni að
halda áfram í stjórnmálum. Þær
áhyggjur leyndu sér ekki á mannamótum
og samfélagsmiðlum. Eftir
fylgdu afar sérstæð afskipti af málefnum
Framsóknarflokksins, köllum
það einlægan áhuga. Sá áhugi
birtist m.a. í beinum útsendingum
frá hverjum Framsóknarfundinum
á eftir öðrum auk reglubundinna
viðtala við fólk sem menn vissu hvar
þeir hefðu.“
Sigmundur endurtekur svo það sem hann hefur oft sagt, að félag þeirra hjóna, sem eiginkona hans á í dag, hafi aldrei verið notað til að draga úr skattgreiðslum, að aldrei hafi verið reynt að fela tilvist félagsins Wintris og hún hafi ekki nýtt tækifæri til að hagnast á íslenskum aðstæðum. Þau hjón hafi ekki bara verið samviskusöm heldur fórnfús. „Réttlæti RÚV felst í að níða þá í svaðið sem eru tilbúnir að fórna eigin hagsmunum en líta fram hjá því þegar menn verja eigin hagsmuni. Það er sitt hvað réttlæti og RÚVlæti.“
Hér má lesa ítarlega fréttaskýringu Kjarnans um Wintris-málið.