Illugi Gunnarsson, starfandi mennta- og menningarmálaráðherra, hefur skipað í nefnd um rekstrarumhverfi fjölmiðla. Í nefndinni verða Hlynur Ingason frá fjármálaráðuneytinu, Svanbjörn Thoroddssen hjá KPMG, Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, Björgvin Guðmundsson hjá KOM og Soffía Haraldsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri mbl.is.
Við valið var horft til þess að sjónarmið mismunandi fjölmiðla endurspeglist sem best.
Hún á að skila tillögum um breytingar á lögum eða um aðrar nauðsynlegar aðgerðir til að bæta rekstrarumhverfi og tryggja að á Íslandi fái þrifist fjölbreyttur markaður frjálsra fjölmiðla. Tillögurnar áttu upphaflega að liggja fyrir 15. febrúar 2017, en samkvæmt heimildum Kjarnans verður sá frestur lengdur.
Illugi Gunnarsson, fráfarandi mennta- og menningarmálaráðherra, lagði fram þingsályktunartillögu þann 3. október síðastliðinn um athugun á rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla á Íslandi. Samkvæmt henni átti hver stjórnmálaflokkur að skipa einn fulltrúa í nefndina. Ekki náðist að klára afgreiðslu tillögunnar áður en þingi var slitið fyrir nýliðnar kosningar og þess í stað kynnti Illugi það í ríkisstjórn að hann myndi skipa nefndina
Í greinargerð með þingsályktunartillögunni kom fram að fulltrúar einkarekinna fjölmiðla á Íslandi hafi vakið athygli stjórnvalda á erfiðleikum sem blasa við í rekstri þeirra og megi rekja til ýmissa utanaðkomandi aðstæðna. Þar megi t.d. telja til að auglýsingamarkaðurinn hérlendis hafi ekki vaxið sem skyldi þrátt fyrir batnandi efnahag þjóðarinnar og auk þess fari ætið stærri hluti auglýsingafjár til erlendra stórfyrirtækja á borð við Google og Facebook. Þá hafi staða Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði einnig takmarkandi áhrif á möguleika annarra fjölmiðla til að afla auglýsingatekna.
Vegna þess hefur verið skorað á stjórnvöld að gera „nauðsynlegar, málefnalegar og tímabærar breytingar á íslenskri löggjöf til þess að jafna samkeppnisstöðu félaga á íslenskum fjölmiðlamarkaði“.