Meðal Íslendingurinn sem er skráður hjá Meniga fór 158 sinnum í matvöruverslun á síðasta ári og eyddi í það 668.419 krónum. Til samanburðar keypti hann sér tilbúinn mat 139 sinnum fyrir samtals 305.143 krónum. Þar er spútnikfyrirtæki ársins Eldum rétt, en söluaukning þess fyrirtækis til notenda Meniga á árinu 2016 nam 300 prósentum. Þetta kemur fram í grein um meðalneyslu íslenskra Meniga-notenda á árinu 2016.
Tölurnar byggja á neysluhegðun þeirra 59.121 íslensku notenda sem skráð eru í Meniga hagkerfið. Samtals eyddi sá hópur 513 milljörðum króna á árinu 2016.
Notendurnir versluðu oftast allra matvöruverslana í Bónus (41 sinnum að meðaltali) og eyddi þar mestu fé (275.378 krónur). Flestir Meniga-notendur tóku eldsneyti á N1. Meðal notandinn fór 16 sinnum í Vínbúðina og eyddi samtals 91.394 krónum í þær vörur sem hún býður upp á.
Eldum rétt, sem selur og sendir heim tilbúna pakka með öllu hráefni sem til þarf til að elda mat, er hástökkvari ársins hjá Meniga í flokknum „Tilbúinn matur“. Alls var söluaukning þeirra hjá notendum Meniga 300 prósent milli ára. Meðal notandinn keypti pakka frá Eldum rétt, sem inniheldur þrjár máltíðir, átta sinnum á árinu 2016 og eyddi í það 74.214 krónum. Í grein um árið hjá Meniga í tölum, sem birt hefur verið á Medium, segir að sumir muni segja að Eldum rétt ætti frekar að keppa í öðrum flokki en „Tilbúinn matur“ í ljósi þess að maturinn frá þeim sé alls ekki tilbúinn. „Þó þeir keppi við stóru matvöruverslanirnar vinna þeir líka,“ segir í greininni.
Meðal notandi Meniga hagkerfisins á Íslandi eyðir 29.066 krónum í Dominos pizzur á ári. Hann greiðir enn fremur 23.939 krónur á ári fyrir mat á Fiskmarkaðnum. Munurinn felst í því að notandinn fer níu sinnum á Dominos fyrir ofangreinda upphæð en einungis einu sinni á Fiskmarkaðinn.
Hugbúnaður Meniga er nú notaður af 71 banka í 18 löndum og þar með hafa 43 milljónir manna aðgang að honum.