Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hafa undanfarna daga farið yfir mál og sett punkta á blað sem eiga að vera grundvöllur viðræðna við Sjálfstæðisflokkinn um ríkisstjórnarsamstarf. Því eru Vinstri græn og Framsóknarflokkurinn að reyna að gera sig að valkosti fyrir Sjálfstæðisflokk í stjórnarsamstarfi nú þegar formlegar viðræður hans við Viðreisn og Bjarta framtíð um myndun ríkisstjórnar eru langt komnar og búist er við að stjórnarsáttmáli þeirra verði kynntur fyrir vikulok. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Fram til þessa hefur mikill meirihluti þingflokks Vinstri grænna lagst alfarið gegn því að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.
Fréttablaðið greinir hins vegar frá því að sátt hafi náðst í öllum þeim stóru málum sem steytti á í síðustu tveimur viðræðulotum milli Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Þar segir að þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin um hvort hefja eigi aðildarviðræður að Evrópusambandinu að nýju og að ákvæði verði í stjórnarsáttmála um að skoðanir ríkisstjórnarflokkanna á málinu séu afar mismunandi. Þeim verði því í sjálfvald sett hvernig þeir greiði atkvæði um þingsályktun um atkvæðagreiðsluna. Samkvæmt þessu mun málið því verða sett til þingsins í formi þingsályktunar og án fulls stuðnings nýrrar ríkisstjórnar. Það mun svo ákveða hvort atkvæðagreiðslan fari fram eður ei.
Blaðið segir einnig frá því að hlutfall af aflaheimildum verði boðið upp árlega til að tryggja að markaðsverð fáist fyrir aflaheimildir í sjávarútvegi. Kjarninn hefur áður greint frá því að Viðreisn hafi lagt fram tillögur í stjórnarmyndunarviðræðum um að selja þrjú til fjögur prósent aflaheimilda á hverju ári til 33 ára
Þá hafði, samkvæmt heimildum Kjarnans, þegar náðst sátt um táknrænar aðgerðir í landbúnaðarmálum í átt að breytingum á því kerfi þegar Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð ræddu fyrst saman í nóvember. Þær aðgerðir verða einnig hluti af stjórnarsáttmála flokkanna nú, takist að klára hann. Í þeim felast meðal annars að tollar verða lækkaðir á bæði kjúklinga, svínakjöt og osta í áföngum. Þá verði endurskoðun á búvörusamningi tekin föstum tökum og samkomulag hefur náðst um að afnema þær undanþágur sem Mjólkursamsalan hefur frá samkeppnislögum.
Formlegar stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar eiga að hefjast í dag. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, fékk stjórnarmyndunarumboð frá forseta Íslands síðdegis á föstudag.