Brynhildur Pétursdóttir, fyrrverandi þingmaður Bjartrar framtíðar, hefur verið ráðin til Neytendasamtakanna. Hún mun vera í forsvari fyrir samtökin á nýrri skrifstofu á Akureyri.
Brynhildur starfaði lengi hjá Neytendasamtökunum og sat í stjórn þeirra áður en hún tók sæti á Alþingi. Hún var áður forstöðumaður skrifstofu samtakanna á Akureyri, en þeirri skrifstofu var hins vegar lokað fyrir nokkrum árum. Nú verður skrifstofan opnuð að nýju.
Brynhildur verður einnig ritstjóri Neytendablaðsins og mun hafa umsjón með heimasíðu samtakanna, að því er fram kemur í tilkynningu frá formanni Neytendasamtakanna, Ólafi Arnarsyni.
Brynhildur sat á þingi fyrir Bjarta framtíð á síðasta kjörtímabili, en hún sagði sig úr flokknum í gær. Það gerði einnig Róbert Marshall, fyrrverandi þingmaður flokksins.