Þingflokkur Pírata „fordæmir eindregið vinnubrögð fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar við skil á skýrslu um starfsemi Íslendinga á aflandssvæðum, sem og skýringar hans á ástæðum þess að hún var ekki gerð opinber fyrr. „Þingflokkur Pírata telur augljóst að fjármálaráðherra lét persónulega og pólitíska hagsmuni sína ganga framar hagsmunum almennings við ákvörðun sína um að birta ekki umrædda skýrslu þegar hann fékk hana afhenta. Í ljósi þess að fjármálaráðherra er meðal þeirra Íslendinga sem átt hefur félag á aflandssvæði var hann einnig með öllu vanhæfur til að taka ákvörðun um tímasetningu birtingar skýrslunnar, hvað þá að fresta henni um tæpa fjóra mánuði frá því henni var skilað,“ segir í yfirlýsingu Pírata.
Enn fremur segir að ráðherra hafi sagt almenningi ósatt um málið, og það gangi ekki upp. „Fyrir liggur að skýrslunni var skilað til ráðuneytis hans þann 13. september síðastliðinn og var ráðherra sérstaka kynnt efni hennar þann 5. október, rúmri viku áður en þingi var slitið fyrir kosningar. Ráðherra getur vart borið fyrir sig minnisglöpum í þessu samhengi, þar sem hann svaraði sjálfur óundirbúinni fyrirspurn um málið á Alþingi þann 10. október. Þar fullyrti hann að umrædd skýrsla yrði birt á næstu dögum, vitandi vel að skýrslan væri tilbúin til birtingar. Þetta þýðir að ráðherra getur ekki hafa verið það óljóst, aðspurður af fréttastofu Rúv, hvort þingi hafi verið slitið eða ekki þegar skýrslan var tilbúin,“ segir í yfirlýsingu Pírata.
Þá er krafa gerð um það að málið verði tekið fyrir í efnahags- og viðskiptanefnd hið fyrsta. Þá er tekið fram að það myndi veikja stöðu þingsins ef það þyrfti að byrja á því að yfirheyra nýjan forsætisráðherra um þessi mál, eftir að ný ríkisstjórn - sem ekki hefur formlega verið mynduð enn - hefur tekið til starfa. „Að sama skapi hvetjum við umboðsmann Alþingis til að taka án tafar fyrir erindi Svandísar Svavarsdóttur vegna þessa máls, þar sem nær óumdeilanlegt virðist að fjármálaráðherra hafi brotið gegn grein 6.c) í siðareglum ráðherra með vinnubrögðum sínum, en þar segir: „Ráðherra leynir ekki upplýsingum sem varða almannahag nema lög bjóði eða almannahagsmunir krefjist þess að öðru leyti. Ráðherra ber að hafa frumkvæði að birtingu slíkra upplýsinga sé hún í almannaþágu[...]Í siðuðum lýðræðisríkjum er það kallað spilling þegar stjórnmálamenn beita opinberu embætti í þágu persónulegra og pólitískra hagsmuna. Þá er það kallað lygi, þegar menn fara vísvitandi með rangt mál,“ segir í yfirlýsingu Pírata.