Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, segir að miðað við fyrstu yfirlýsingar Jóns Gunnarssonar, nýs ráðherra samgöngumála, um Reykjavíkurflugvöll megi velta því fyrir sér hvort eitthvað sé að marka stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.
Jón sagði í gær að enginn önnur lausn sé í stöðunni en að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni. Hann endurtók þá skoðun í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun og útilokaði þar ekki inngrip í skipulagsvald Reykjavíkurborgar í málinu. „„Það eru mörg fordæmi fyrir því að stjórnvöld hafa gripið inn í skipulagsvald sveitarfélaga þegar almannahagsmunir liggja við. Þær skyldur sem við berum gagnvart þessu mikilvæga samgöngumannvirki geta alveg réttlætt það ef við náum ekki samkomulagi. Í þessu felst engin hótun af minni hálfu. Það hefur blasað við okkur öllum að þetta hefur gengið erfiðlega, að ná ásættanlegri niðurstöðu,“ sagði Jón.
Stefnt að því að flugvöllurinn víki eftir 2022
Ekki hefur verið einhugur um hvort að miðstöð innanlandsflugs verði áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík eða verði færð annað. Reykjavíkurborg hefur lengi viljað að flugvöllurinn verði færður svo hægt sé að byggja í Vatnsmýrinni og þétta þar með höfuðborgina. Um sér að ræða verðmætasta byggingarlandið innan marka hennar sem sé auk þess afar mikilvægt fyrir þróun hennar.
Samkvæmt samgönguáætlun er gert ráð fyrir að flugvöllurinn verði þar sem hann er til 2022 hið minnsta en aðalskipulag Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir að hann víki í áföngum eftir það ár og loki árið 2024. Í fyrrasumar komst Hæstiréttur Íslands að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið þurfi að standa við samkomulag sitt við Reykjavíkurborg um loka norðaustur/suðvestur-flugbrautinni, sem stundum er kölluð neyðarbrautin, á Reykjavíkurflugvelli. Þingsályktunartillagan um þjóðaratkvæðagreiðsluna var lögð fram í kjölfarið.
Spyr hvort eitthvað sé að marka sáttmálann
Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar, sem birt var á miðvikudag, kemur fram að ríkisstjórnin muni „beita sér fyrir lausn á áratugadeilu um framtíð Reykjavíkurflugvallar með því að stofna til formlegra viðræðna samgönguyfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, Reykjavíkurborgar, annarra sveitarfélaga og hagsmunaaðila. Tekin verði ákvörðun um fyrirliggjandi kosti að undangengnu mati og innviðir innanlands- og sjúkraflugs þannig tryggðir til framtíðar.“ Fyrir liggur að ráðamenn innan bæði Viðreisnar og Bjartrar framtíðar eru alfarið á móti því að skipulagsvald verði tekið af Reykjavíkurborg í málinu og fylgjandi því að aðrir kostir verði skoðaðir fyrir miðstöð innanlandsflugs.
Dagur segir Reykjavíkurborg sé að sjálfsögðu reiðubúin að ræða flugvallarmálið. „Það höfum við ítrekað undirstrikað og teljum að niðurstaða Rögnu-nefndarinnar hafi lagt góðan grunn að því. Miðað við fyrstu yfirlýsingar ráðherra sýnist mér aðalspurningin vera sú hvort eitthvað sé að marka stjórnarsáttmálann sem talar um að horfa til framtíðar og vinna að sátt í málinu.“